Forsvarsmenn gogoyoko.com hvetja Íslendinga til að kaupa íslenska tónlist á Degi íslenskrar tónlistar, sem er á morgun, og styðja þannig við íslenska tónlist og tónlistarmenn. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá aðstandendum vefsins.
Þar er minnt á að gogoyoko.com sé tónlistarbúð og samfélag á netinu þar sem fólk geti keypt tónlist beint af tónlistarmönnum og hljómsveitum, sem og plötuútgáfum í þeim tilvikum sem listamenn eru með plötusamning.
„gogoyoko.com hefur fengið fregnir af því að STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, ætli að gefa eftir allar greiðslur til tónskálda og eigenda flutningsréttar á Degi íslenskrar tónlistar. Með þessum hætti er ákveðnum tónlistarbúðum á netinu gefin kostur á að gefa íslenska tónlist, með samþykki útgefanda,“ segir m.a. í yfirlýsingunni og bent á að gogoyoko.com hafi fyrst í hádeginu í dag boðist að gera slíkt hið sama.
„Við viljum viljum hvorki né getum gefið tónlist listamanna, nema með fullu samþykki þeirra listamanna sem eiga í hlut. Við höfum ekki tök á að fá samþykki þeirra listamanna sem eru með tónlist sína í sölu á gogoyoko.com með þetta skömmum fyrirvara. Við hefðum gjarnan viljað fá upplýsingar um að STEF hygðist gefa eftir greiðslur til höfunda þennan dag með meiri fyrirvara. Við höfum því hafnað þessu boði STEF. [...] Á meðan við vonum að allir þeir listamenn sem verið er að gefa tónlist með á morgun séu samþykkir þessum ráðahag, hvetjum við fólk til að kaupa íslenska tónlist á Degi íslenskrar tónlistar.“