„Öll heimili í landinu koma til með að greiða hærri skatta," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á opnum fundi um skattamál í Valhöll í dag. Hann sagði líka að skattahækkanirnar kæmu illa við fyrirtækin og ættu eftir að ýta undir samdrátt í efnahagslífinu og atvinnuleysi.
Bjarni sagði að það væri enginn ágreiningur milli Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar um að það yrði að takast á við fjárlagahallann og að það þyrfti að fara blandaða leið niðurskurðar og tekjuöflunar. Sjálfstæðisflokkurinn vildi hins vegar ekki fara þá skattahækkunarleið sem ríkisstjórnin vildi fara.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur látið reikna út nokkur dæmi um áhrif tillagna stjórnvalda um skattahækkanir á fjölskyldur. Bjarni sagði að einstaklingur með 250 þúsund í mánaðartekjur þyrfti að greiða 60 þúsund króna meira í tekjuskatt á ári og 38 þúsund meira í neysluskatta. Í dæminu er reiknað með að maðurinn skuldi 10 milljónir í húsnæðislán og 1,9 milljónir í bílalán. Þessi lán koma til með að hækka um 214 þúsund á næsta ári vegna þess að áhrif skattahækkana á neysluverðsvísitölu eru þau, að verðlag hækkar um 1,8%.
Bjarni sagði að í tíð fyrri ríkisstjórnar hefðu verið sett í lög að persónufrádráttur ætti að hækka í samræmi við verðlag. Til viðbótar hefði ríkisstjórnin á síðasta ári samþykkt, sem innlegg í lausn á kjaradeilu á vinnumarkaði, að hækka persónufrádrátt um 7000 kr. í þremur áföngum. Fyrsti áfanginn væri kominn til framkvæmda. Bjarni sagði að nú hefði ríkisstjórnin ákveðið að fella niður annan áfangann, en léti þriðja áfanga, 2000 kr hækkun, koma til framkvæmda á næsta ári. Síðan léti ríkisstjórnin eins og þetta væri hennar framlag, en minntist ekkert á að búið hefði verið að ákveða þessa hækkun með lögum. Þá hefði ríkisstjórnin ákveðið að fella úr gildi tengingu persónufrádráttar við verðlag.
Bjarni sagði að eitt helsta verkefni stjórnvalda á þessu ári hefði verið að takast á við skuldavanda heimilanna. Ríkisstjórnin hefði brugðist bæði seint og illa við þessum vanda. Nú væri hún hins vegar að hækka skuldir heimilanna með skattahækkunum, auk þess sem hún væri að skerða ráðstöfunartekjur þeirra.
Bjarni sagði áhrif skattahækkunar á atvinnulífið væri ekki síður alvarleg. Með hækkun skatta lækkuðu tekjur fyrirtækjanna. Þetta kæmi til með að ýta undir samdrátt í efnahagslífinu og stuðla að auknu atvinnuleysi.