Hæstiréttur hefur dæmt Jafet Ólafsson til að greiða 1 milljón króna í sekt fyrir að afhenda Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni, trúnaðarupplýsingar og brotuð þannig gegn þagnarskylduákvæðum laga um fjármálafyrirtæki. Hæstiréttur þyngdi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafði dæmt Jafet til að greiða 250 þúsund krónur í sekt.
Jafet var talinn hafa brotið gegn þagnarskyldunni í starfi sínu sem stjórnarmaður og starfsmaður hjá VBS fjárfestingabanka. Hæstiréttur segir, að við ákvörðun refsingar sé litið til þess að Jafet hefði framið brot sitt í starfi hjá fjármálafyrirtæki, sem viðskiptamaður hans mátti lögum samkvæmt treysta fyrir upplýsingum um einkamálefni sín. Jafet hefði ekki látið við það sitja að greina öðrum manni frá þeim upplýsingum, heldur afhent honum að auki hljóðupptöku af samtali, þar sem þær komu fram.
Fjármálaeftirlitið kærði Jafet til lögreglunnar fyrir að hafa árið 2006 afhent Sigurði, sem þá var framkvæmdastjóri Fjárfestingarfélagsins Grettis, hljóðupptöku af samtali Jafets og Geirs Zoëga.
Í samtalinu ræddu þeir Jafet og Geir um viðskipti með bréf í Tryggingamiðstöðinni til Grettis. Grettir hugðist kaupa af Geir 5% hlut í Tryggingamiðstöðinni og var búið að semja um verð fyrir hlutina á föstudegi og ákveðið að ganga frá kaupunum á mánudegi klukkan 15, fyrir milligöngu Jafets og Verðbréfastofunnar.
Ekkert varð af kaupunum, en Geir Zoëga hringdi í Jafet rétt fyrir undirritun og sagðist vera nýkominn af fundi með öðrum kaupendum og þeir hafi handsalað kaup á hlutnum. Þetta samtal var hljóðritað.
Sigurði G. Guðjónssyni þótti slæmt að kaupin gengju ekki eftir og taldi ennfremur að yfirtökuskylda hefði myndast við hinn kaupsamninginn þar sem kaupendurnir áttu þegar stóran hlut í Tryggingamiðstöðinni. Hann skrifaði erindi til Fjármálaeftirlitsins þess efnis og fékk hljóðupptökuna hjá Jafeti erindinu til stuðnings.
Geir Zoëga taldi Jafet hafa brotið á sér trúnað með afhendingu upptökunnar og kvartaði til fjármálaeftirlitsins sem kærði Jafet til lögreglunnar.
Hæstiréttur vísar til þess í dómi sínum, að aðspurður fyrir héraðsdómi um ástæður þess að þetta hafi verið gert hafi Jafet sagt: „ég leit svona út eins og illa gerður hlutur um það að vera kominn þetta langt með þetta ... þannig að trúverðugleiki minn gagnvart Sigurði beið ákveðinn hnekki við það að af þessum viðskiptum varð ekki. Þannig að ég er, með því að sýna honum þessa upptöku, að sýna honum fram á hvað Geir sagði í samtalinu“.