Sjálfstæðisflokkurinn hefur í dag kynningu á afleiðingum fyrirhugaðra skattahækkana ríkisstjórnarinnar á heimilin í landinu, að því er segir í tilkynningu frá flokknum.
„Birtar voru auglýsingar í dagblöðum í morgun þar sem tekin eru dæmi um áhrif skattahækkananna á einstaklinga og fjölskyldur og bent á skynsamlegri leið til að bregðast við fjárþörf ríkissjóðs. Hún felst í því að taka skatt af séreignarsparnaði nú, en ekki þegar hann verður greiddur út. Sú aðgerð hefur engin áhrif á greiðslur til félaga í séreignarsjóðum, hvorki í nútíð né í framtíð. Þeir fá nákvæmlega sömu upphæð í sinn hlut við útgreiðslu og hvort sem hún er skattlögð nú eða síðar.
Það er ljóst, þrátt fyrir staðhæfingar fulltrúa ríkisstjórnarinnar um annað, að ráðstöfunartekjur allra heimila landsins munu dragast saman verði hugmyndir hennar um hærri tekjuskatt í þrepaskiptu skattkerfi, hækkandi vörugjöld og virðisaukaskatt að veruleika, - líka þeirra lægst launuðu sem ríkisstjórnin segist ætla að verja," að því er segir í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.