Telur Icesave-frumvarp brjóta gegn stjórnarskrá

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson. mbl.is/Ómar

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ítrekar þá skoðun sína í netpistli í dag, að frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinga, brjóti óbreytt gegn stjórnarskrá Íslands. 

Birgir, sem er lögfræðingur að mennt, segir á vefnum amx.is, að hann telji að frumvarpið brjóti í tveimur tilvikum gegn 2. grein stjórnarskrár, sem kveður á um að dómsvald á Íslandi sé í höndum innlendra dómstóla en ekki annarra. 

Segir Birgir, að hendur íslenskra dómstóla verði samkvæmt frumvarpinu bundnar með þeim hætti, að þeir verði í dómum sínum bundnir af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins eða jafnvel forúrskurðum dómstóls ESB. Ella hafi niðurstöður þeirra ekki þau réttaráhrif, sem til er ætlast. Með því sé í raun verið að færa dómsvald úr landi.

Birgir segir einnig, að það fullveldisframsal, sem í þessu felist, gangi lengra en EES-samningurinn gerir ráð fyrir og að þær röksemdir, sem lágu að baki takmörkuðu og vel skilgreindu framsali ríkisvalds vegna aðildar Íslendinga að Schengen-samstarfinu 1999-2000 og innleiðingu tiltekinna ákvæða samkeppnisreglna ESB 2004-2005 eigi ekki við að þessu sinni. Mælikvarðarnir, sem fræðimenn á sviði lögfræði miðuðu við í þeim málum, séu ekki fullnægjandi til að réttlæta fullveldisframsalið í frumvarpinu.

Pistill Birgis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert