Orri Vigfússon, formaður NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, hefur sent sendiherra Bandaríkjanna í Noregi bréf þar sem hann hvetur Barack Obama, Bandaríkjaforseta, til að verða ekki við ósk norskra stjórnvalda um að fá aukinn aðgang á Bandaríkjamarkaði fyrir norskan eldislax.
Sagt er frá þessu á vef norska ríkisútvarpsins, NRK. Obama mun í dag eiga fund með Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, og segir Orri í bréfinu, að á fundinum muni Stoltenberg bera fram erindi um norskan eldislax.
„Fái Stoltenberg sínu framgengt munu norsk stjórnvöld nýta sér það til að auka á hið eyðandi laxendi," skrifar Orri í bréfinu að sögn NRK.
Orri segir, að stóraukið laxeldi hafi leitt til þess, að laxalús hafi breiðst út. Aðeins sé hægt að fjarlægja hana með efnum, sem geti verið skaðleg neytendum.
Orri hefur lengi barist fyrir viðgangi villtra laxastofna í Norður-Atlantshafi.