Verið að vísa SA frá stöðugleikasáttmálanum

Vilhjálmur Egilsson.
Vilhjálmur Egilsson. mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir á heimasíðu samtakanna að þau geti varla annað en litið svo á að ríkisstjórnin sé að vísa þeim frá stöðugleikasáttmálanum með áformum um verulega skaðlegar breytingar á skattlagningu fyrirtækja.

„En það hvort ríkisstjórnin vill eiga samstarf við Samtök atvinnulífsins eða ekki er í sjálfu sér aukaatriði miðað við það stóra hagsmunamál að starfsskilyrði atvinnulífsins verði með þeim hætti að Íslendingar komist út úr kreppunni á næsta ári en þurfi ekki að búa við hana til margra ára," segir Vilhjálmur.

Hann segir að Samtök atvinnulífsins hafi unnið með ríkisstjórninni af fullri ábyrgð gagnvart þeirri þörf að ná niður halla ríkissjóðs.  „Það hefur legið fyrir að skattahækkanir eru óhjákvæmilegar og kalla á auknar álögur á atvinnulífið.  Samtök atvinnulífsins hafa leitað eftir útfærslu á skattahækkunum sem valda atvinnulífinu eins takmörkuðu tjóni og mögulegt er.  Þess vegna geta Samtök atvinnulífsins ekki unað þeim áformum um verulega skaðlegar breytingar á skattlagningu fyrirtækja sem nú liggja fyrir og þau geta heldur ekki unað frumvarpi sjávarútvegsráðherra um óábyrgar fiskveiðar til þess að hygla pólitískum vinum og vandamönnum sínum. Slíkt veldur þjóðinni miklum kostnaði til lengri tíma."

Heimasíða Samtaka atvinnulífsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert