„Ég var að fá tölur sunnanfrá. Atvinnuleysi á meðal félagsmanna hjá mér í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis er komið í 18%.
Auðvitað er þetta alveg djöfulleg staða og við finnum virkilega fyrir henni. Þetta er tala sem ég hef ekki séð síðan um 1990 þegar við fengum hér mikla niðursveiflu, þá sá ég aðeins hærri tölur.
Þetta er að verða mesta atvinnuleysi sem við höfum horft fram á,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, um nýjar tölur um atvinnuleysi, sem mældist 8% á landinu öllu í nóvember.
„Ég óttast að talan eigi eftir að hækka fram að áramótum og jafnvel fram í febrúar.“
– Hvað finnst þér um viðleitni stjórnarinnar til að skapa störf?
„Þetta gengur alltof hægt. Þetta er á algjörum skjaldböku- og skriðdýrshraða. Það vantar ekkert upp á að verkalýðshreyfingin hafi verið í góðu samstarfi við lífeyrissjóðina og komið með útréttar hendur í allar áttir með allskonar verkefni. Þetta gengur alltof hægt. Menn eru að rífast um lóðamál, staðsetningar á brúm og annað þess háttar. Það er sorglegt hversu hægt þetta gengur.“
„Stemningin er sú að við erum með efnileg verkefni um allt þar sem stjórnvöld eru alltaf að þvælast fyrir, samanber álverið. Maður skilur hvorki upp né niður í þeirri afstöðu. Svo koma menn hér og halda ræður á flokksstjórnarfundum og á öðrum fundum um atvinnumál en svo er sami árans lappadrátturinn alveg um leið og fundi er lokið.
Maður veltir því alvarlega fyrir sér í hvaða sendiferð hún Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra er.“