Ræktun lúpínu hefur jákvæð áhrif á fuglalíf, þegar hún er sett í ógróið land. Kemur það fram í rannsókn sem gerð hefur verið á uppgræðslusvæðum Landgræðslunnar á Mýrdalssandi og Skógarsandi.
Tómas G. Gunnarsson, Háskóla Íslands og Guðný H. Indriðadóttir, Landgræðslu ríkisins, rannsökuðu landnám fugla, tegundir og fjölda á uppgræðslusvæðunum. Niðurstöðurnar hafa verið birtar á netritinu Conservation Evidence og einnig er sagt frá þeim á vef Landgræðslunnar.
Bæði svæðin voru auðnir, áður en byrjað var að rækta lúpínu, og sandfok mikið enda svæðin erfið til uppgræðslu.
Niðurstöðurnar sýna að fyrst nema land fuglar sem nærst geta á pöddum í gróðri, einkum þúfutittlingar, en þegar jarðvegslag fer að byggjast upp bætast við fuglar sem nærast á ánamöðkum og annarri innfánu, til dæmis hrossagaukar.