Langtímaskuldir ríkissjóðs meira en tvöfölduðust á árinu 2008, fóru úr 527,4 milljörðum króna í ársbyrjun í 1199,9 milljarða í árslok. Hækkunin nam því 672,5 milljörðum króna en stærstur hlutinn stafaði af því að ríkissjóður yfirtók 270 milljarða veðkröfur Seðlabankans til að bjarga honum frá þroti.
Þetta kemur m.a. fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning fyrir síðasta ár. Segir stofnunin, að skuldaaukningin skýrist einkum af fjórum ástæðum.
Um 121 milljarður er vegna meiri útgáfu ríkisbréfa á innlendum lánamarkaði. Þegar leið á árið voru gefnir út nýir flokkar ríkisbréfa í því skyni að auka framboð á ríkisskuldabréfum. Með því var ætlunin að afstýra því að fjárfestar flyttu fé úr landi og veiktu þannig gengi krónunnar.
270 milljarðar eru vegna veðlána sem ríkissjóður yfirtók frá Seðlabankanum. Eftir gjaldþrot bankanna í október urðu þessar veðkröfur verðlitlar en Seðlabankinn hafði lánað bönkunum háar fjárhæðir fyrr á árinu, m.a. með veði í skuldabréfum sem þeir gáfu út. Til að forða Seðlabankanum frá þroti yfirtók ríkissjóður þessar veðkröfur.
Erlendar skuldir ríkissjóðs jukust um 163 milljarða króna vegna gengislækkunar íslensku krónunnar á árinu.
Lífeyrisskuldbindingar jukust um 112 milljarða, einkum vegna neikvæðrar raunávöxtunar á fjárfestingum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, yfirtekinna skuldbindinga og áhrifa réttindaávinnslu vegna launabreytinga.
Ríkisendurskoðun segir síðan, að bráðabirgðatölur um skuldastöðu ríkissjóðs í lok september 2009 sýni að innlendar langtímaskuldir hafi aukist um 100 milljarða frá áramótum og nemi núna 639 milljörðum króna. Þar sé einkum um að ræða skuldir í formi ríkisbréfa. Staða erlendra skulda sé hins vegar svipuð og í ársbyrjun.