Samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar í vikunni, að leggjast eindregið gegn því að allt Skjálfandafljót verði friðlýst.
Um var að ræða umsögn um þingsályktunartillögu um friðlýsingu Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs þess ofan Mjóadalsár, sem Þuríður Backman og fleiri þingmenn lögðu fram á Alþingi.
Fram kemur í samþykkt sveitarstjórnarinnar, að unnið sé að aðalskipulagi Þingeyjarsveitar og standi vonir til að það verði staðfest fyrir mitt næsta ár. M.a. hafi verið rætt um að friða hluta Skjálfandafljóts en þar falli undir þeir staðir sem þegar eru á náttúruminjaskrá, eins og Goðafoss, Aldeyjarfoss, Hrafnabjargafoss og Þingey.
Í vinnudrögum aðalskipulags sé lagt til að fallið verði frá öllum virkjunaráformum í Skjálfandafljóti, þar á meðal áformum um Hrafnabjargavirkjun. Hins vegar vilji sveitarfélagið áskilja sér rétt til að nýta vatn úr Skjálfandafljóti til vistvænnar starfsemi, eins og t.d. kælivatnstöku fyrir tölvugagnaver þar sem vatninu yrði skilað aftur í fljótið.
„Sveitarstjórn leggst í sjálfu sér ekki gegn því að vatnasvið Skjálfandafljóts verði friðlýst ofan Mjóadalsár. Sveitarstjórn telur eðlilegt að afstaða til slíkrar friðunar verði tekin í aðalskipulagi sveitarfélagsins áður en ríkisvaldið tekur fram fyrir hendurnar á sveitarfélaginu í skipulagsmálum. Sveitarstjórn og skipulagsnefnd hafa í vinnu sinni við aðalskipulagsgerðina lagt sig fram um að gæta að umhverfisþætti skipulagsmála í hvívetna," segir í umsögninni.