Leggjast gegn friðun alls Skjálfandafljóts

Goðafoss er í Skjálfandafljóti.
Goðafoss er í Skjálfandafljóti. mbl.is/Einar Falur

Samþykkt var á fundi sveit­ar­stjórn­ar Þing­eyj­ar­sveit­ar í vik­unni, að leggj­ast ein­dregið gegn því að allt Skjálf­andafljót verði friðlýst.

Um var að ræða um­sögn um þings­álykt­un­ar­til­lögu um friðlýs­ingu Skjálf­andafljóts og alls vatna­sviðs þess ofan Mjóa­dals­ár, sem Þuríður Backm­an og fleiri þing­menn lögðu fram á Alþingi.

Fram kem­ur í samþykkt sveit­ar­stjórn­ar­inn­ar, að unnið sé að aðal­skipu­lagi Þing­eyj­ar­sveit­ar og standi von­ir til að það verði staðfest fyr­ir mitt næsta ár. M.a. hafi verið rætt um að friða hluta Skjálf­andafljóts en þar falli und­ir þeir staðir sem þegar eru á nátt­úru­m­inja­skrá, eins og Goðafoss, Ald­eyj­ar­foss, Hrafna­bjarga­foss og Þing­ey.

Í vinnu­drög­um aðal­skipu­lags sé lagt til að  fallið verði frá öll­um virkj­un­ar­áform­um í Skjálf­andafljóti, þar á meðal áform­um um Hrafna­bjarga­virkj­un. Hins veg­ar vilji sveit­ar­fé­lagið áskilja sér rétt til að nýta vatn úr Skjálf­andafljóti til vist­vænn­ar starf­semi, eins og t.d. kæli­vatnstöku fyr­ir tölvu­gagna­ver þar sem vatn­inu yrði skilað aft­ur í fljótið.

„Sveit­ar­stjórn leggst í sjálfu sér ekki gegn því að vatna­svið Skjálf­andafljóts verði friðlýst ofan Mjóa­dals­ár. Sveit­ar­stjórn tel­ur eðli­legt að afstaða til slíkr­ar friðunar verði tek­in í aðal­skipu­lagi sveit­ar­fé­lags­ins áður en rík­is­valdið tek­ur fram fyr­ir hend­urn­ar á sveit­ar­fé­lag­inu í skipu­lags­mál­um. Sveit­ar­stjórn og skipu­lags­nefnd hafa í vinnu sinni við aðal­skipu­lags­gerðina lagt sig fram um að gæta að um­hverf­isþætti skipu­lags­mála í hví­vetna," seg­ir í um­sögn­inni.

Vef­ur Þing­eyj­ar­sveit­ar

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert