Netfang Bryndísar misnotað

AP

Óþekktir tölvuþrjótar hafa komist yfir lykilorð Bryndísar Schram fyrir netfang hennar hjá yahoo.com og notað aðganginn að netfanginu til að senda beiðni um peningalán til fólks sem er á póstlista Bryndísar.

Bryndís hefur ekki lengur aðgang að netfangi sínu vegna þessa og hefur tilkynnt misnotkunina á netfanginu til yahoo. Hún vonast til þess að netfanginu verði lokað í dag og að hún fái aðgang að póstlistanum til að geta varað þá, sem eru á honum, við misnotkuninni.

Bryndís segir þetta mjög leiðinlegt mál því fólk hvaðnæva af hafi hringt í sig eftir að hafa fengið tölvupóst frá netfangi hennar, meðal annars fólk í Mexíkó, Bandaríkjunum og víðar.

Í tölvupósti sem sendur hefur verið frá netfanginu segist sendandinn, sem kynnir sig sem Bryndís Schram, hafa lent í miklum vandræðum í London vegna þess að peningum hennar og farangri hafi verið stolið. Óskað er eftir láni að andvirði 1.500 punda en ekki er gefin upp neinn bankareikningur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert