Neysluútgjöld hækka

mbl.is

Neysluútgjöld á heimili árin 2006–2008 hækkuðu um 7,5% frá tímabilinu 2005–2007 og voru þau um 426 þúsund krónur á mánuði, eða 178 þúsund krónur á mann, samkvæmt niðurstöðu Hagstofunnar. Á sama tíma hefur meðalstærð heimilis minnkað lítillega, úr 2,4 einstaklingum í 2,39 og hafa útgjöld á mann því hækkað um 8,2%.

Ráðstöfunartekjur meðalheimilisins í rannsókninni voru rúmar 470 þúsund krónur á mánuði, um 197 þúsund krónur á mann. Ráðstöfunartekjur flestra hópa voru hærri en útgjöld þeirra en neysluútgjöldin voru að meðaltali um 90% af ráðstöfunartekjum.

Hagstofan segir, að vísbendingar séu um töluverðan samdrátt neysluútgjalda í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 eða um 17% að raungildi frá lokaársfjórðungi ársins 2007 til sama tímabils árið 2008 og um 12% ef bílakaup heimilanna eru undanskilin.

Í úrtaki voru 3504 heimili, 1728 þeirra tóku þátt í rannsókninni og var svörun því tæp 50%.

Rannsókn á útgjöldum heimilanna 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert