Samherji hf. afhenti fyrr í dag styrki til ýmissa samfélagsverkefna að fjárhæð 60 milljónir króna. Flestir styrkirnir eru veittir til íþrótta- og æskulýðsfélaga á Akureyri og Dalvík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem fyrirtækið hefur sent frá sér.
Þar kemur einnig fram að Samherji hafi í rúman aldarfjórðung verið hluti af eyfirsku samfélagi og lengst af meðal stærstu fyrirtækja á svæðinu. Því fylgi mikil ábyrgð og hafi félagið um árabil látið samfélagið í kringum sig njóta góðs af starfseminni með því að styrkja innviði þess með ýmsum hætti.
"Þátttaka barna og unglinga í íþróttum er ómetanlegur þáttur í forvörnum og uppeldi. Samherji vill efla þjálfun og annað starf félaganna og um leið stuðla að því að sem flest börn og unglingar geti stundað þær íþróttagreinar sem hugur þeirra stendur til. Fjármununum skal varið til að lækka æfingagjöld barna og unglinga og kostnað við keppnisferðir þeirra," segir m.a. í tilkynningunni.
Samherji styrkti einnig HL-stöðina á Akureyri sem er endurhæfingarstöð fyrir hjarta- og lungasjúklinga. Endurhæfingardeildinni í Kristnesi var veittur styrkur til tækjakaupa og Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk styrk til að setja upp merkingar á útivistarsvæðinu í Kjarnaskógi.