Minnihluti fjárlaganefndar greiddi atkvæði gegn fjárlagafrumvarpinu í núverandi mynd. „Við teljum að það sé boðið upp á sama aga- og aðhaldsleysi í fjárlögum eins og stefnir í að verði útkoma ársins 2009,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sem situr fyrir Sjálfstæðisflokk í nefndinni.
„Tekjugrein fjárlaganna er mjög óljós og við höfum ákveðnar efasemdir um að þetta gangi einfaldlega upp.“ Skattalagabreytingar sem hljóði upp á að örva eigi efnahagslífið með skattheimtu séu t.a.m. hæpnar að sínu mati, ekki hvað síst þar sem skattheimtan fari að mestu í greiðslu vaxta.
„Við teljum þetta að mörgu leiti vera marklaus drög,“ segir Kristján Þór. Stórar stærðir vanti t.a.m. inn í frumvarpið s.s. greiðslu vaxta vegna Icesave, sem og útfærslu á bókun útgjalda vegna byggingaframkvæmda við Landspítala háskólasjúkrahús. „Þetta er óútfært í þeim tillögum sem liggja fyrir, en eru samt svo stórar stórar stærðir að þær hljóta að telja.“
Töluverðar breytingar hafi þá verið gerðar á gjaldahlutanum milli umræðna, sem ekki hafi gefist nægur tími til að skoða. „Þetta er mjög hröð afgreiðsla og það hefði verið æskilegra að fá lengri tíma til að sitja yfir frumvarpinu,“ sagði Kristján Þór, en taldi engu að síður að unnt yrði að hefja aðra umræðu frumvarpsins strax eftir helgi.