Veita ekki álit um Icesave

Fyrrum hæstaréttadómarar hafa afþakkað að veita Alþingi lögfræðiálit um Icesave
Fyrrum hæstaréttadómarar hafa afþakkað að veita Alþingi lögfræðiálit um Icesave mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Ekki kemur til þess að hæstaréttardómararnir fyrrverandi, Guðrún Erlendsdóttir og Pétur Kr. Hafstein, veiti Alþingi lögfræðiálit um hvort Icesave-frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrár. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Samkomulag er milli stjórnar og stjórnarandstöðu um tiltekið verklag við meðferð Icesave-málsins. Lögfræðiálitið er hluti af því. Leitað var til Guðrúnar og Péturs þar sem hvorugt hefur látið í ljós skoðun sína á málefninu - öfugt við marga lögspekinga.

Bæði hafa hafnað málaleitan þingsins. Pétur staðfesti það í samtali við Fréttablaðið en vildi ekki skýra málið frekar. Guðrún sagði hins vegar að aldrei hefði komið til greina af sinni hálfu að taka verkið að sér. „Ég hafði aldrei heyrt neitt um þetta fyrr en ég heyrði fréttir í útvarpinu og hafði ekki hugsað mér að taka þetta að mér. Þetta er ekki hrist fram úr erminni," sagði Guðrún í samtali við blaðið.

Reynt er að fá aðra lögspekinga til verksins. Einnig er reynt að fá bresku lögfræðistofuna Mishcon de Reya til að segja álit sitt á tilteknum lagaatriðum samninganna við Breta og Hollendinga. Beðið er svars um hvort stofan vilji taka það að sér. Samningur þar um er háður tíma og kostnaði. Einnig er til skoðunar að leita sérfræðiálits á efnahagslegum þáttum málsins.

Ætlunin er að þrjár fastanefndir þingsins fái afmörkuð úrlausnarefni til meðferðar. Stjórnarandstæðingar vilja að Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir komi fyrir utanríkismálanefnd, samkvæmt því sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, segir óvíst hvort af því verði. Nefndin hafi raunar ekki fengið málið formlega til meðferðar. Fari svo yrði það rætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka