Vilja sundlaug í gömlu höfninni

Teikning úr verðlaunatillögunni sem sýnir sundlaug á Ægisgarði.
Teikning úr verðlaunatillögunni sem sýnir sundlaug á Ægisgarði.

Viðlegukantur fyrir skemmtiferðaskip, þjónustuhús fyrir ferðafólk og hótel á nýjum stað í miðbænum, austan Hörpu, nýja tónlistarhússons, og sundlaug á Ægisgarði í innhöfninni miðri er meðal þess sem gert er ráð fyrir í sigurtillögunni í hugmyndasamkeppni um skipulag Gömlu hafnarinnar og Örfiriseyjar í Reykjavík. 

Það var arkitektastofa í Edinborg í Skotlandi, Graeme Massie Architects, sem hlaut fyrstu verðlaun í A-hluta samkeppninnari sem Faxaflóahafnir sf. efndu til. Stofan hefur oft áður tekið þátt í samkeppnum hér á landi og varð meðal annars hlutskörpust í samkeppni um uppbyggingu í Vatnsmýrinni á síðasta ári. Samstarfsaðili skosku stofunnar á Íslandi er ráðgjafarfyrirtækið Alta. Niðurstaða samkeppninnar var kynnt síðdegis en verðlaunin námu 7,5 milljónir króna.

Dómnefnd segir að höfundum skosku verðlaunatillögunnar hafi tekist að styrkja tengsl miðbæjarins og hafnarinnar og tileinka sér meginatriði framtíðarsýnar Faxaflóahafna sf., meðal annars með því að leggja til að umferð um miðbæinn verði færð út fyrir hafnarmynnið. Skýr skil séu á milli blandaðrar byggðar íbúðarhúsnæðis, athafna- og iðnaðarhúsnæðis og vettvangs menningar og viðskipta á svæðinu. 

Höfundar tveggja tillagna deildu 2.-3. sæti og hlutu hvorir um sig tvær milljónir króna í verðlaun: annars vegar arkitektarnir Björn Ólafs og François Perrot, hins vegar Þorsteinn Helgason, Gunnar Örn Sigurðsson, Páll Gunnlaugsson og Valdimar Harðarson arkitektar FAÍ hjá arkitektastofunni ASK arkitektum ehf. Viðurkenningu/innkaup fyrir athyglisverða tillögu hlaut Arkibúllan ehf., 500.000 krónur.

Samkeppnin var tvískipt. Alls barst 51 tillaga, þar af 12 tillögur í A-hlutann, sem var ætlaður hönnuðum og öðru fagfólki og undirbúin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. B-hlutinn var hins vegar opinn öllum án nokkurra skilyrða og þar bárust 39 tillögur. Heildarupphæð verðlauna var 14 milljónir króna, þar af 12 milljónir króna fyrir A-hluta samkeppninnar.

Átta tillögur hlutu verðlaun í B-hluta hugmyndasamkeppninnar, fjórar fengu 300.000 krónur og aðrar fjórar 200.000 krónur. Það kom aðstandendum samkeppninnar þægilega á óvart hve margir sýndu viðfangsefninu áhuga með því að senda inn tillögur um leiðir til að auðga mannlíf og efla hafnarsvæðið.

Dæmi um hugmyndir er listaverk sem jafnframt gegnir hlutverki upplýsingamiðils fyrir almenning, fisk- og kjötmarkaður undur þaki á Miðbakka, graffítí-skreyting á útvöldum olíugeymum, leikvöllur með sjóræningjaskipi og sérstök lýsing á Miðbakka.

Allar tillögur verða til sýnis í Víkinni sjóminjasafni, Grandagarði 8, til 20. desember. Þar er opið alla virka daga kl. 11-17 og um helgar kl. 13-17.

Vefur um verðlaunatillöguna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert