Stjórn Framtakssjóðs Íslands, fjárfestingarfélagsins sem 16 lífeyrissjóðir stofnuðu sl. þriðjudag, kom saman til fyrsta fundar síns fyrir helgina og skipti með sér verkum. Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, var kjörinn formaður og Ragnar Önundarson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, var kjörinn varaformaður. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sjóðnum.
Þar kemur fram að fyrsta verkefni stjórnarinnar verði að auglýsa starf framkvæmdastjóra laust til umsóknar og að móta nánar fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn. Stjórnarmenn leggi áherslu á að vinna hratt að málum til að starfsemi Framtakssjóðs Íslands komist á skrið fljótlega á nýju ári.
Aðrir í stjórn eru: Baldur Þór Vilhjálmsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Vilborg Lofts, rekstrarstjóri heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík, Guðfinna Bjarnadóttir, fyrrverandi alþingismaður, og Auður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar.