Ágúst Einarsson stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands

Baldur Þór Vilhjálmsson, Ragnar Önundarson, Vilborg Lofts, Þorkell Sigurlaugsson, Guðfinna …
Baldur Þór Vilhjálmsson, Ragnar Önundarson, Vilborg Lofts, Þorkell Sigurlaugsson, Guðfinna Bjarnadóttir, Ágúst Einarsson og Auður Finnbogadóttir.

Stjórn Framtakssjóðs Íslands, fjárfestingarfélagsins sem 16 lífeyrissjóðir stofnuðu sl. þriðjudag, kom saman til fyrsta fundar síns fyrir helgina og skipti með sér verkum. Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, var kjörinn formaður og Ragnar Önundarson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, var kjörinn varaformaður. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sjóðnum.

Þar kemur fram að fyrsta verkefni stjórnarinnar verði að auglýsa starf framkvæmdastjóra laust til umsóknar og að móta nánar fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn. Stjórnarmenn leggi áherslu á að vinna hratt að málum til að starfsemi Framtakssjóðs Íslands komist á skrið fljótlega á nýju ári.

Aðrir í stjórn eru: Baldur Þór Vilhjálmsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Vilborg Lofts, rekstrarstjóri heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs  Háskólans í Reykjavík, Guðfinna Bjarnadóttir, fyrrverandi alþingismaður, og Auður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert