„Það er erfitt að horfa upp á félaga sína við þessar aðstæður í hátt í tvo tíma og geta ekkert gert“, segir Sigurður Axel Axelsson, rafvirki á Akranesi, sem var í hópnum sem lenti í vandræðum í Steinsholtsá á leiðinni inn í Þórsmörk í gærkvöldi.
Tíu manna hópur frá Akranesi var á leiðinni í Bása í Goðalandi á þremur jeppum. Þar ætluðu þeir að gista í eina nótt.
Þegar þeir voru að fara yfir Steinsholtsá hreif straumurinn einn bílinn. Mennirnir þrír komust upp á þak bílsins og var bjargað eftir um það bil eins og hálfs tíma vist þar. Þeir voru allir blautir og einn var orðinn kaldur en hresstist fljótt eftir að hann komst í hlý föt og heitan bíl.
Hrundi fram af bakka
Bíllinn sem lenti í ánni var stærsti jeppinn í ferðinni, mikið breyttur Nissan Patrol, á stórum dekkjum. Hann fór fyrir leiðangrinum.
„Við fórum út á eyri í ánni og áttum eitt haft yfir. Hann var að fikra sig þar yfir þegar bíllinn hrundi fram af bakka í ánni. Það var greinilega mikill gröftur í henni.
Áin hreif framendann og ekki var möguleiki á að bakka aftur upp eins og ökumaðurinn hafði ætlað sér. Bíllinn snerist í hringi á meðan hann færðist á að giska 60 til 70 metra niður eftir ánni og í einum snúningnum munaði minnstu að hann færi á hliðina. Það gerðist sem betur fer ekki.
Ferðin endaði þannig að farþegahliðin sneri upp í strauminn, þeir komust út farþegamegin og upp á topp,“ segir Sigurður Axel.
Mennirnir á hinum tveimur bílunum biðu á 20 til 30 sentímetra djúpu vatni á eyrinni. Þeim tókst að taka við línu frá félögunum sínum úti í ánni en ekki var talið unnt að draga þá að bílunum. Straumurinn var svo þungur. Sömuleiðis reyndu þeir að ganga út í ána, í áttina til þeirra, en það var líka ófært.
Sigurður Axel telur að bíllinn hafi verið kominn niður í Krossá, að minnsta kosti að ármótunum, en erfitt hafi verið að átta sig á því í myrkrinu og vatnavöxtunum í gær.
Þarf að bera virðingu fyrir náttúruöflunum
Félagar úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem björguðu mönnunum úr ánni á Benz Unimog pallbíl náðu bílnum upp úr ánni og komu honum á öruggan stað. Ferðahópurinn er á leið austur til að ná í hann.
„Maður þarf að bera virðingu fyrir náttúruöflunum, þau eru oft sterkari en mann grunar, og fara varlega. Það var mikið í ám á leiðinni sem venjulega eru smá sprænur en við tókum ekki mark á þeim viðvörunarmerkjum. Auðveldara hefði verið að snúa við, eins og oft hefur verið gert,“ segir Sigurður Axel þegar hann er spurður hvað þeir félagarnir geti lært á þessu óhappi.
Hann tekur fram að þeir séu allir reyndir ferðamenn. Hafi farið í margar ferðir inn í Þórsmörk og um allt hálendið.