Fimmtungur án skírteinis

Lögreglumenn úr umferðardeild við eftirlit í nágrenni Laugardalshallarinnar.
Lögreglumenn úr umferðardeild við eftirlit í nágrenni Laugardalshallarinnar. mbl.is/Daði Freyr

Fimmtungur ökumanna þeirra bíla sem umferðardeild lögreglunnar stöðvaði í Laugarneshverfi og Laugardal í Reykjavík í gærkvöldi var án ökuskírteinis. Einn var sviptur ökuskírteini vegna gruns um ölvun við akstur og tveimur til viðbótar var bannað að aka áfram vegna þess að þeir höfðu neytt áfengis þó í minna mæli væri.

Lögreglan stöðvaði 166 ökutæki í Laugardal og Laugarneshverfi frá klukkan níu í gærkvöldi til eitt í nótt. 31 var ekki með ökuskírteini og mega því margir búast við sekt.

Mikið var um að vera í hverfinu þetta kvöld, Frostrósartónleikar í Laugardalshöll og jólahlaðborð á hótelum. Ökumennirnir sem áfengisáhrif fundust hjá voru ekki að koma af tónleikunum.

Í morgun var umferðardeildin lögreglunnar í Reykjavík með eftirlit á nokkrum stöðum í miðbænum, á milli klukkan hálf átta og tíu.

Þrír voru kyrrsettir vegna þess að það sást á mæli að þeir höfðu neytt áfengis þó í litlu væri, farið var með þann fjórða niður á stöð og hann sviptur ökuskírteini vegna gruns um akstur undir áhrifum.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar voru flest tilvikin þannig að ökumenn fóru of snemma af stað, eftir áfengisneyslu í gærkvöldi eða nótt.

Lögreglumenn voru við eftirlit við Laugardalshöllina, eftir fjölsótta Frostrósartónleika. Allt …
Lögreglumenn voru við eftirlit við Laugardalshöllina, eftir fjölsótta Frostrósartónleika. Allt mun hafa farið vel fram. mbl.is/Daði Freyr
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert