Fjárveiting til sjóvarna við Vík

Vík í Mýrdal.
Vík í Mýrdal. mbl.is/Jónas Erlendsson

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til að veitt verði 70 milljóna króna framlag á næsta ári til sjóvarna við Vík í Mýrdal. Heimamenn segja að sjórinn hafi undanfarin ár brotið sífellt meira land og færst nær byggðinni og eru íþróttamannvirki staðarins og skólinn orðin í verulegri hættu ef ekkert verður að gert.

Fjárlaganefnd segir að um sé að ræða að hækka og styrkja flóðvarnargarðinn vestan Víkurár á um 750 metra kafla.

Auk milljónanna 70 er gert ráð fyrir allt að 30 milljóna króna framlagi til verksins af fjárveitingu sjóvarna og því verði alls varið 100 milljónum til verkefnisins á næsta ári.

Upphafleg kostnaðaráætlun verksins er 200 milljónir en í ljósi hagstæðra tilboða sem borist hafa í hliðstæð verk er bundin von við að tilboð berist í verkið sem geri kleift að ljúka því á árinu 2011 og verja hluta fjárveitinga til sjóvarna þess árs til verksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert