Hætta vegna íkveikju við fjölbýlishús

Lögregla og slökkvilið náði að slökkva eldinn á Ísafirði. Myndin …
Lögregla og slökkvilið náði að slökkva eldinn á Ísafirði. Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Hætta skapaðist í fjölbýlishúsi við Fjarðarstræti á Ísafirði upp úr klukkan fimm í nótt þegar eldur var lagður að stórri sorptunnu úr plasti sem stendur við húsið. Eldurinn náði að læsa sig í veggklæðningu.

Lögreglan fékk fljótt tilkynningu um eldinn og þremur lögreglumönnum tókst að slökkva eldinn með nokkrum handslökkvitækjum. Eldurinn gaus hins vegar upp aftur og náði að læsa sig í veggklæðningu. Slökkviliðið náði að slökkva eldinn fljótt og örugglega.

Fjórar íbúðir eru í húsinu og voru íbúarnir vaktir til öryggis. Ekki kom þó til þess að rýma þyrfti húsið vegna þess hversu vel gekk að slökkva. Svo vildi til að enginn gluggi er á gafli hússins, yfir sorptunnunni.

Þótt vel hafi tekist með slökkvistarf telur lögreglan að íbúum hafi stafað hætta af íkveikjunni.

Lögreglan á Ísafirði rannsakar málið og biður þá sem séð hafa til mannaferða við húsið upp úr klukkan fimm í nótt að hafa samband í síma  450 3730.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert