Vill heimild til að semja um gagnaver

Gagnaver Verne Global.
Gagnaver Verne Global.

Iðnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að hann fái heimild til að semja við Teha Investments S.a.r.l.,  Novator, Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. um byggingu og rekstur gagnavers í Reykjanesbæ.

Í frumvarpinu kemur fram, að samningurinn við fyrirtækin skuli kveða á um þær skuldbindingar af hálfu ríkisins, eigendanna og félaganna sem kunni að þykja nauðsynlegar og viðeigandi. Miðað sé við að samningurinn gildi í að minnsta kosti 20 ár.

87 milljarða verkefni

Verne er að byggja upp gagnaverssvæði við Ásbrú í Reykjanesbæ en fyrirtækið keypti  tvær stórar vörugeymslur af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar. Gert er ráð fyrir allt að fjórum aðaltölvuverum og nokkrum stuðningsbyggingum sem hýsa meira en 20.000 fermetra tæknirými og nota 80–140 MW raforku frá landsnetinu til að knýja og kæla tölvubúnað. 

Gert er ráð fyrir að kostnaður við að ljúka við smíði allrar miðstöðvarinnar, samkvæmt núverandi áætlun, verði rúmar 470 milljónir evra, jafnvirði 87 milljarða króna.  Þegar henni er lokið munu u.þ.b. 100 manns gegna fullu starfi í gagnaverinu, annaðhvort beint eða á vegum íslenskra undirverktaka.

Á áætluðum sjö ára byggingartíma er gert ráð fyrir að 80–120 manns muni starfa þar í byggingarvinnu að meðaltali, til viðbótar við starfslið gagnaversins. Verne hyggst ljúka fyrsta áfanga verkefnisins á árinu 2010, en hann mun kosta röskar 67 milljónir evra. Auk þeirra grunnkerfa, sem komið verður upp til að þjóna viðskiptavinum Verne, mun félagið reisa nýja spennistöð fyrir hönd Landsnets sem verður hluti af grunngerð gagnaverssvæðisins og Ásbrúar.

Viðskiptalíkan Verne byggir á heildsölu gagnaversþjónustu til stórra viðskiptavina. Fyrirtækið býður viðskiptavinum sínum margvíslega þjónustu þar sem miklar kröfur eru gerðar um áreiðanleika, þ.m.t. raforku, kælingu, tæknirými, öryggi, tengingar innan rýmisins og annað sem þarf til reksturs tölvukerfa. Þjónustan er að jafnaði seld til langs tíma með 5–10 ára þjónustu- eða leigusamningnum. Væntanlegir viðskiptavinir Verne eru stórir notendur gagnaversþjónustu, m.a. á sviði fjármálaþjónustu, netmiðlunar og fjölmiðla, lífvísinda og genatækni, olíu- og gasfélög, auk mennta- og rannsóknarstofnana á sviði afkastamikillar reiknitækni.

Verne mun einnig leita viðskiptavina meðal fyrirtækja sem samþætta og endurselja upplýsingatækni á hnattrænum markaði. Verne býður þó ekki almenna stjórnun upplýsingakerfa eða tengda þjónustu sem hluta af meginstarfsemi sinni. Verne gerir ráð fyrir að ráða íslenska samstarfs- og þjónustuaðila til að sinna verkefnum á því sviði eftir þörfum viðskiptavina sinna.

Verne Holdings er í eigu hóps hluthafa sem hver um sig á minnihluta í fyrirtækinu, en þeir tveir stærstu eru Novator og Teha Investments S.A.R.L. Auk Novator og Teha eiga stjórnendur talsverðan hlut í fyrirtækinu.  Ætlun Verne er að fjármagna næstu áfanga verkefnisins með hlutafé frá nýjum fjárfestum, sem munu bætast í hóp hluthafa félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert