Vonar að framleiðsla aukist

Garðyrkjubændur hafa staðið í baráttu til að fá lækkaðan aftur …
Garðyrkjubændur hafa staðið í baráttu til að fá lækkaðan aftur raforkukostnað sem hækkaði mikið fyrr á árinu. Árni Sæberg

„Mér sýnist þetta vera viðurkenning á því, að það sé ekki hægt að skilja garðyrkjuna eftir eins og gert var. Þessi viðbót fer langt með að dekka það sem þörf er fyrir,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda.

Í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp næsta árs er gert ráð fyrir því að niðurgreiðslur vegna lýsingar í ylrækt verði auknar um 30 milljónir kr. og verði alls 180 til 190 milljónir kr. 

Framlaginu er ætlað að koma til móts við þá hækkun sem orðið hefur á framleiðslukostnaði hjá garðyrkjubændum að undanförnu með hækkandi raforkuverði og flutningskostnaði rafmagns.

Jafnframt er gert ráð fyrir 8,5 milljóna kr. framlagi til niðurgreiðslu á lýsingu, þannig að garðyrkjan verði undanþegin 0,12 kr. raforkuskatti sem gert er ráð fyrir í frumvarpi um umhverfis- og auðlindaskatta.

Bjarni segist ekki vera búinn að átta sig fyllilega á því hvað aukin niðurgreiðsla þýðir. Það fari að einhverju leyti eftir því hvað mikið sé lýst.

„Það sem af er ári hefur verið dregið úr lýsingu og það endurspeglast í minni framleiðslu og meiri innflutningi afurða. Ég tel að þetta verði til þess að ylræktarmenn lýsi áfram og þessi þróun snúist við,“ segir Bjarni.

Garðyrkjubændur óskuðu ekki eftir auknum niðurgreiðslum heldur vildu að stórir raforkunotendur sæju þess merki í töxtunum.

„Við erum ánægðir með það skref sem ríkisstjórnin tekur, það sýnir  viðhorfið til garðyrkjunnar,“ segir Bjarni en bætir því við að áfram þurfi að ræða fyrirkomulagið til framtíðar. Garðyrkjubændur vilji losna við niðurgreiðslur sem Bjarni segir að færa megi gild rök fyrir að séu ekki niðurgreiðslur þeirra framleiðslu heldur fjárframlag til RARIK því garðyrkjubændur séu að greiða of hátt verð fyrir flutning raforkunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert