Afdrifarík mistök

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að Seðlabankinn hefði gert afdrifarík mistök þegar hann ákvað hvaða veða hann krafðist fyrir lánum til fjármálastofnana. Hefði bankinn að verulegu leyti tekið svokölluð ástarbréf að veði og þau væru nú verðlítil eða verðlaus.  

Gylfi var að svara fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, um málið. Gylfi sagði, að ekkert væri við því að segja að seðlabanki veiti bankakerfi lausafjárfyrirgreiðslu. Það mætti hins vegar velta því fyrir sér hvort lausafjárfyrirgreiðslan væri of mikil.

„En það er alveg ljóst að Seðlabankinn gerði afdrifarík mistök þegar hann ákvað hvaða veða hann krafðist fyrir þessum lánum," sagði Gylfi. Hann sagði að til samanburðar mætti bera saman kröfur, sem seðlabanki Evrópu, gegnum seðlabanka Lúxemborgar, krafðist þegar íslensku bankarnir fóru fram á að fá lausafjárfyrirgreiðslu þar. Evrópski seðlabankinn hefði krafist veða í ríkisskuldabréfum og útlánasöfnum bankanna og þegar upp væri staðið væri útlit fyrir að bankinn tapaði ekki einni einustu evru á íslensku bönkunum. 

Íslenski seðlabankinn hefði hins vegar tekið ótryggð bréf, svonefnd ástarbréf, að veði og því væri tjón bankans eins mikið og raun bæri vitni. Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu í síðustu viku að kröfur bankans vegna þessa næmu 345 milljörðum króna.

Björn Valur spurði hvort Gylfi teldi ekki þörf á sérstakri rannsókn á aðkomu Seðlabankans að þessum viðskiptum og æðstu stjórn hans, sem Ríkisendurskoðun virtist einkum beina spjótum sínum að.

Gylfi sagði, að það mætti vel vera að tilefni sé til rannsóknar á málinu. Hann sagði hins vegar rétt að bíða niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis og bregðast við ef sú niðurstaða gæfi tilefni til frekari rannsóknar eða breytingar á lögum um ábyrgð stjórnendana Seðlabankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert