Mark Flanagan, formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, segir það vera mikla framför ef önnur endurskoðun efnahagsáætlunar AGS verði tekin fyrir í janúar. „Í dag eru aðeins liðnar sex vikur frá því fyrsta endurskoðunin var tekin fyrir,“ segir Flanagan.
„Við erum því hálfnuð með þriggja mánaða ferli, og erum á áætlun,“ segir hann jafnframt.
Fyrsta endurskoðunin átti að fara fram í febrúar sl. en fór fram í lok október.
Flanagan segist sjá ýmis jákvæð teikn á lofti varðandi endurreisn Íslands í kjölfar hrunsins. „Efnahagssamdrátturinn hefur ekki verið jafn alvarlegur og við héldum að hann yrði. Mínus 7, eða mínus 7,5 í stað mínus 10. Gjaldmiðillinn hefur haldist stöðugur og við erum að komast á leiðarenda með bankana. Við munum brátt ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu. Stjórnvöld eru byrjuð að setja saman traustari fjárhagsáætlun.“
Hann segir jafnframt að glögg merki séu um að efnahagslífið á Íslandi sé að komast á réttan kjöl. Vonir standi til að málin muni halda áfram að þróast í þá átt á næsta ári. Fulltrúar AGS muni einblína að efnahagur landsins muni halda áfram að styrkjast.