„Við fjölskyldan erum mjög ósátt við þennan dóm,“ segir Hrönn Óskarsdóttir, systir 16 ára stúlku sem varð fyrir hrottalegri árás sjö 16-17 ára stúlkna um hábjartan dag í miðri viku í Heiðmörk í apríl sl.
Dæmt var í máli þeirra þriggja stúlkna sem höfðu mest í frammi í árásinni í héraðsdómi Reykjaness í dag og þar var ákveðið að fresta ákvörðun um refsingu þeirra í þrjú ár haldi þær almennt skilorð. Þær voru ákærðar fyrir að slá og sparka margsinnis í yngri stúlkuna með þeim afleiðingum að hún marðist og hlaut fleiri áverka.
Stúlkurnar játuðu allar brot sitt. Ein stúlkan fór í vímuefnameðferð í kjölfarið. Héraðsdómur segir, að líta verði til aldurs þeirra og játningar og iðrunar og að þær hafi ekki áður gerst sekar um refsiverða háttsemi. Á móti komi að verknaðurinn sé alvarlegur.
„Við vissum alveg að við myndum fá blauta tusku í andlitið úr þessu dómsmáli, spurningin var bara hversu blaut hún yrði. Og þetta er verra en við áttum von á,“ segir Hrönn og tekur fram að fjölskyldan sé ekki síst ósátt við að málið sé látið hanga yfir þeim næstu þrjú árin meðan stúlkurnar eru á skilorði. „Þarna er bara verið að hugsa um hagsmuni gerendanna. En hver á að passa upp á hagsmuni fórnarlamba?“ segir Hrönn.
Tekur hún fram að ljóst megi vera af dómnum að aðeins sé verið að dæma út frá líkamlegum áverkum þar sem sálrænu áhrifin sem árásin hefur haft séu algjörlega hunsuð. Bendir Hrönn sem dæmi á að ekki hafi í dómsmálinu verið leitað eftir mati frá áfallateyminu sem aðstoðað hafi systur hennar eftir árásina.
„Það sem einkennir ofbeldismál er að mannlegi þátturinn virðist gleymast, þar sem eftir situr fórnarlamb með svo stórt sár á sálinni sem kostar blóð, svita og tár að reyna að láta gróa. Svona upplifun breytir fólki fyrir lífstíð,“ segir Hrönn og bætir við að beinbrot virðist litið alvarlegri augum en sár á sálinni.
„Það er rosaleg alvarlegt þegar dómsvalið kemur með þá yfirlýsingu með svona dómum að þetta sé ekkert svo alvarlegt. Hvaða skilaboð erum við þá að senda út í samfélagið?“ spyr Hrönn.
Spurð hvers konar refsingu hún hefði viljað sjá segist Hrönn hafa viljað sá aukna eftirfylgni og eins að árásin hefði einhverjar afleiðingar fyrir gerendurna. „Hvernig á fólk annars að læra ef það hefur engar afleiðingar að eyðileggja sálarlíf annarrar manneskju?“ spyr Hrönn.
Innt eftir því hvernig systir hennar hafi það segir Hrönn að fyrstu mánuðirnir eftir árásina hafi verið skelfilega erfiðir og kostað margar andvökunætur. Systir hennar fái enn, átta mánuðum eftir árásina, aðstoð hjá áfallateymi og sé enn í tímum hjá sálfræðingi auk þess sem fjölskyldan hafi veitt henni mikinn stuðning. Hrönn bendir á að árásin hafi átt sér stað rétt áður en systir hennar hafi átt að byrja í prófum í 10. bekk og því hafi hún þurft að fresta þeim, en sem betur fer tekist að klára grunnskólann og sé nú komin í framhaldskóla. „Sem betur fer var hún nýbúin í jólaprófunum þegar málið var dómtekið, því þetta tekur mikið á.“
Spurð hver verði næstu skref í málinu segir Hrönn ljóst að kannaðir verði möguleikar á að fara í einkamál. „Við munum alla vega byrja á því að fá okkur nýjan lögfræðing, því við erum ekki sátt við störf réttargæslumanns hennar,“ segir Hrönn og bendir á að fjölskyldan hafi t.d. ekki fengið að leggja fram kröfu í málinu, hún hafi ekki vitað af því þegar málið var dómtekið, hafi ekki fengið að taka þátt í réttarhöldunum og hafi ekki vitað að dómur væri fallinn fyrr en blaðamaður hringdi í þau.