Flanagan: Icesave í fjórða sæti

Mark Flanagan, sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrisssjóðsins, segir að þrátt fyrir að mikið sé rætt um að Ísland geti orðið gjaldþrota vegna Icesave-skuldbindinganna þá séu þær aðeins fjórða atriðið á listanum yfir orsakir skuldasöfnunar Íslands nú.  

„Stærsta ástæðan fyrir vaxandi skuldum Íslands er gríðarlega hár fjárlagahalli,“ segir Flanagan. „Það eykur skuldir ríkisins um 30-40% af vergri landsframleiðslu á nokkrum árum,“ segir sendifulltrúinn.

Þar á eftir komi það tap sem ríkið og Seðlabankinn urðu fyrir þegar bankakerfið hrundi. Mikið af verðbréfum, sem ríkið og Seðlabankinn voru með urðu nánast verðlaus. Tap vegna þessa svari til um 20% af landsframleiðslu. 

Þriðja ástæðan sé svo kostnaður ríkisins við endurfjármögnun bankanna en á móti komi eignir. 

Icesave sé í fjórða sæti. Flanagan segir, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi reiknað út hver kostnaður þjóðarbúsins vegna Icesave kunni að verða og og áætlað sé að hann muni nema 10-15% af vergri landsframleiðslu.

Flanagan segir, að lífskjör muni batna á Íslandi á næstu árum þegar hagvaxtar fer að gæta.  „Okkar hlutverk er að reyna að tryggja að Ísland muni ná því markmiði fyrr en síðar."

Hann segir að mikilvægt sé fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að útskýra fyrir Íslendingum hvaða hlutverk hann hafi axlað í endurreisn efnahagskerfið. Bæði sjóðurinn og íslenska ríkisstjórnin geti staðið sig betur við að útskýra efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert