Kjördæmapot og spilling við „handónýta“ fjárlagagerð

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar og Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar og Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.

„Vinnubrögðin við fjárlagagerðina eru náttúrulega handónýt,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar í fjárlaganefnd. Ekki hafi verið farið efnislega yfir nærri því alla liði í fjárlagafrumvarpinu og málið unnið á hundavaði.

Þór segir að við úthlutun fjármuna undir „safnalið“ fjárlaga gæti þingmenn margir hverjir hagsmuna síns eigin kjördæmis frekar en að láta fagleg sjónarmið ráða för. Það sé hrein og klár spilling. „Það á bara að banna þingmönnum að úthluta lægri upphæðum en t.d. 50 milljónum. Þá eiga þær upphæðir sem eru yfir 50 milljónum að fara sameiginlega fyrir alla nefndina,“ segir hann.

Úthlutun fjár til smærri verkefna á landsbyggðinni ætti að fara í gegnum svæðisbundna sjóði, segir Þór. Eins og málum sé háttað í dag deili nefndarmenn meirihlutans í fjárlagnefnd með sér fjárhæðum og útdeili þeim eftir geðþótta, án þess að eftirfylgni sé með því í hvað peningarnir eru látnir fara.

Fjárlögin betur unnin en undanfarin ár

„Það er ekki hægt að gagnrýna þessa málsmeðferð miðað við það hvernig fjárlög hafa verið unnin undanfarin ár,“ segir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar. Hann bendir á að búið sé að halda 38 fundi um fjárlögin og að fleiri hundruð manns hafi komið fyrir fjárlaganefnd vegna þeirra.

„Það er líka óvenjulegt við þessa fjárlagagerð að lagt var upp með skýrslu sem lögð var fram í þinginu í júní og fjallaði um jöfnuð í ríkisfjármálum árin 2009 til 2013. Hún var rædd þá og það hefur verið unnið á grundvelli hennar. Óvenjulegt er að þingið sé upplýst með þessum hætti um fjárlagagerð. Þannig að ef eitthvað er hefur verið mun betur staðið að þessu en þau tvö ár sem ég hef verið í fjárlaganefnd,“ segir Guðbjartur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert