Ólafur Ragnar gerður að heiðursdoktor

Gordon Gee rektor Ríkisháskólans í Ohio sæmir forseta nafnbót heiðursdoktors
Gordon Gee rektor Ríkisháskólans í Ohio sæmir forseta nafnbót heiðursdoktors

Ríkisháskólinn í Ohio, fjölmennasti háskóli Bandaríkjanna, gerði í gær Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að heiðursdoktor við athöfn í Columbus.

Heiðursdoktorsnafnbótin er veitt fyrir framlag Ólafs Ragnars til alþjóðasamfélagsins og baráttunnar gegn loftslagsbreytingum, fyrir að efla samstarf vísindamanna og fræðastofnana á vettvangi umhverfismála og nýtingar náttúruauðlinda og stuðla þannig að lausnum á brýnum vandamálum veraldar.

Athöfnin fór fram á hátíðarsamkomu háskólans og sóttu hana um fimmtán þúsund manns: prófessorar, kennarar og starfslið háskólans,útskriftarnemendur og fjölskyldur þeirra. Kvöldið áður sat Ólafur Ragnarhátíðarkvöldverð í boði rektors háskólans, Gordon Gee.

Meðan á dvölinni í Ohio stóð flutti Ólafur Ragnar tvo fyrirlestra. Sá fyrri fjallaði um loftslagsbreytingar, bráðnun jökla og árangur af landgræðslu og gróðurvernd á Íslandi, svo og hvað aðrar þjóðir geti lært af því starfi. 

Síðari fyrirlesturinn var haldinn í boði Alþjóðaráðs Columbusborgar, Columbus Council of World Affairs, og fjallaði hann um loftslagsbreytingar, nýtingu hreinnar orku, reynslu Íslendinga og möguleika Bandaríkjanna til að virkja jarðhita. 

Þá átti Ólafur Ragnar nokkra viðræðufundi með prófessorum og forystumönnum við Ohio ríkisháskólann. Þar var einkum fjallað um samvinnu við Ísland á sviði landgræðslu, loftslags- og jöklarannsókna og nýtingar kolefnis á hagkvæman hátt með skynsamlegri landnotkun og nýjum búskaparháttum.

Heimasíða forseta Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert