SÁÁ boðar til útifundar á Austurvelli

Göngudeild SÁÁ
Göngudeild SÁÁ mbl.is/Valdís Thor

SÁÁ boða til útifundar á Austurvelli á morgun, þriðjudaginn 15. desember klukkan 17 og skorar á landsmenn að mæta og sýna þannig samstöðu sína með baráttu samtakanna gegn áfengis- og vímuefnavandanum.

„Þökkum fyrir alla þá sem hafa náð bata eftir meðferð hjá SÁÁ, fögnum fjölskyldum sem hafa öðlast betra líf og minnumst þeirra alkóhólista sem sjúkdómurinn hefur dregið til dauða,“ segir í fundarboðinu á heimasíðu SÁÁ.

„Baráttan gegn áfengis- og fíkniefnavandanum er dauðans alvara. Áður en SÁÁ byggði upp sitt öfluga starf þótti sjálfsagt að alkóhólista glutruðu frá sér góðu lífi. Skuggi alkóhólismans lagðist yfir líf fjölskyldna kynslóð eftir kynslóð. Eftir áratuga starf samtakanna hefur þótt sjálfsagt að alkóhólistar fái heilbrigðisþjónustu eins og aðrir hópar sjúklinga,“ segir í fundarboðinu.

Þessi góði árangur sé hinsvegar nú í hættu, því ef skerðingartillögur fjárlagafrumvarpsins nái fram að ganga muni alvarlegt og óbætanlegt skarð verða höggvið í starf SÁÁ. „Þingmenn verða að finna aðrar leiðir til að spara en hætta lífi og lífshamingju alkóhólista og aðstandenda þeirra.“

Á útifundinum á Austurvelli munu Páll Óskar Hjálmtýsson og Bubbi Morthens syngja „kjark og æðruleysi“ í fundarmenn. Kveikt verður á kertum sem þakklætisvotti fyrir þau líf sem starfsemi SÁÁ hefur bjargað og bætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert