Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði um áttaleytið í gærkvöldi afskipti af nokkrum unglingum í Kringlunni. Að sögn lögreglu brutust út slagsmál á milli unglinganna vegna deilumála.
Unglingarnir voru fimm og voru þrír þeirra 15 ára, einn 18 ára og einn 12 ára, en sá yngsti var undir áhrifum hass. Tveir leituðu á slysadeild eftir átökin með minniháttar meiðsl og er talið að einn hafi nefbrotnað.
Unglingarnir fimm voru fluttir á lögreglustöð og kallað í foreldra til að sækja þau þangað. Barnavernd var auk þess látin vita af málinu og ástandi þess yngsta.