Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í fjárlaganefnd Alþingis segja nauðsynlegt að grípa til sársaukafullra aðhaldsaðgerða til að rétta þjóðarskútuna en gagnrýnisvert sé hversu mikið rekstur ríkisins þandist út á liðnum árum. Ástæða hefði verið til, þegar slátturinn í hagkerfinu var mikill, að draga úr opinberum rekstri í stað þess að bæta stöðugt í.
Í nefndaráliti um fjárlagafrumvarpið segja þingmennirnir, að eitt veigamesta verkefni ríkisstjórnarinnar á næstu árum verði að koma böndum á útgjöld ríkissjóðs. Í stöðugleikasáttmálanum milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins hafi verið gert ráð fyrir að aðlögunarþörf ríkissjóðs skiptist í 45% aðlögun á tekjuhlið og 55% aðlögun á útgjaldahlið.
Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram hafi strax verið gefið eftir á útgjaldahliðinni og boðuð 53% aðlögun þeim megin. Þessi breyting þýði, að ætlunin var að sækja 12 milljarða króna í aukna skatta umfram það sem ákveðið var í stöðugleikasáttmálanum.
„Fyrir 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins slakar stjórnarmeirihlutinn á aðhaldskröfu ríkisstjórnarinnar á útgjaldahlið fjárlaga. Tekjuhliðin er enn í frumumræðu í efnahags- og skattanefnd og ófyrirséð hvernig þeim þætti fjárlagagerðarinnar lýkur. Spurnir berast af því að stjórnarmeirihlutinn eigi í vandræðum með að standa að þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið á útgjaldahliðinni og því miður er ástæða til að óttast að gengið verði skemur í lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarpsins en þó var ætlunin við framlagningu þess.
Það er ástæða til að vara sérstaklega við þessu vinnulagi. Ríkisstjórnin mun ekki komast hjá því þegar til lengri tíma er litið að skera verulega niður í ríkisútgjöldum. Öðruvísi er ókleift fyrir þjóðina að komast í gegnum þennan brimskafl," segir í áliti þingmannanna.
Fram kemur að ríkisútgjöld hafi aukist um 50% á síðustu tíu árum. Mest hafi aukningin orðið í útgjöldum til velferðar- og menntamála auk þess sem útgjöld til annarra liða ríkisrekstrarins hafi aukist stöðugt.
„Því eru það nokkur öfugmæli þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur segist ætla að byggja hér upp norrænt velferðarkerfi að tala um að hér þurfi að taka upp norrænt velferðarkerfi með himinháum sköttum þegar á Íslandi hefur orðið til samfélag hóflegra opinberra álaga og framúrskarandi velferðarþjónustu fyrir alla þjóðfélagshópa, ekki síst fyrir þá sem standa höllum fæti."