Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, sagðist á Alþingi í dag ekki sjá ástæðu til að biðjast afsökunar á þætti sínum í mótmælunum sl. vetur. „Við gerðum það sem þurfti að gera, við fórum út á götur og mótmæltum og það bar tilætlaðan árangur," sagði Álfheiður.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók málið upp í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og vísaði meðal annars til þess, að Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, hefði í viðtali við Morgunblaðið gagnrýnt heilbrigðisráðherra harðlega fyrir hennar framgöngu í mótmælunum.
Þá vísaði Gunnar Bragi í viðtali við Álfheiði í Ríkisútvarpinu frá því í nóvember 2008 þar sem hún segði, að það hefði verið hefndarráðstöfun lögreglu gagnvart mótmælendum, að handtaka ungan mann á Austurvelli. Í kjölfarið fóru mótmælendur að lögreglustöðinni við Hlemm og gerðu aðsúg að lögreglunni. Spurði Gunnar Bragi hvort Álfheiður væri enn sömu skoðunar og hvort hún teldi ástæðu til að biðja lögregluna afsökunar.
Álfheiður sagðist hafa, ásamt þúsundum Reykvíkinga og Íslendinga, þátt í mótmælaaðgerðum sl. vetur. Það að vera kjörinn á Alþingi tæki ekki af mönnum stjórnarskrárvarinn rétt til að lýsa skoðunum sínum í orði eða með þátttöku í friðsamlegum mótmælum. „Sú sem hér stendur hefur ekki beitt neinu ofbeldi með þátttöku í mótmælaaðgerðum og hefur þvert á móti fordæmt ofbeldi," sagði Álfheiður.
Gunnar Bragi sagði að Álfheiður hlyti þá að velta því fyrir sér hvað segja ætti við lögreglumenn og jafnvel starfsmenn þingsins, sem meiddust og hlutu jafnvel varanlegan skaða af því sem hún kallaði friðsamleg mótmæli.
Álfheiður sagði, að margir hefðu hlotið pústra og meiðsl, sérstaklega í augum og lungum. Mér er ekki kunnugt um hversu margir hlutu varanlegan skaða af þessu. En ég minni á þegar mótmælendur mynduðu skjaldborg framan við lögreglumenn við Stjórnarráðshúsið þar sem, samkvæmt viðtali við sama formann Lögreglufélagsins og þingmaðurinn vitnaði til, ótíndir glæpamenn, sem töldu sig eiga einhverja harma að hefna við lögregluna, notuðu tækifærið undir yfirskyni mótmæla, til að veitast að lögreglumönnum með grjótkasti í þeim tilgangi að meiða," sagði Álfheiður.
Hún sagði að þeir sem hefðu hlotið einhver meiðsl af þessu eða öðru ættu að nýta allan sinn rétt til að sækja bætur.