Ekki upplýst um hverjir áttu fé á Icesave-reikningum

Landsbanki Íslands getur ekki  upplýst hverjir voru innlánseigendur að Icesave-reikningum bankans sakir bankaleyndar. Þetta kemur fram í svari viðskiptaráðherra á Alþingi við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar, alþingismanns, en hann vildi vita hversu margir Íslendingar hefðu átt inneignir á Icesave-reikningum í Bretlandi og Hollandi árið 2008.

Í svarinu kemur fram, að Landsbanki Íslands hf. hafi verið almennt hlutafélag skráð á markaði þar til í október 2008. Þó að Fjármálaeftirlitið  hafi gripið inn í rekstur bankans hafi hann eftir sem áður verið viðskiptabanki á samkeppnismarkaði, lotið reglum laga um fjármálafyrirtæki, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og reglum settum á grundvelli þeirra, m.a. um meðferð trúnaðarupplýsinga.

Þá segir viðskiptaráðherra að NBI hf. (nýi Landbankinn) sé einnig hlutafélag og þótt ríkissjóður eigi hlutabréf í honum lúti hann lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. 

Viðskiptaráðuneytið segist hvorki hafa  undir höndum neinar upplýsingar um starfsemi einstakra fyrirtækja á fjármálamarkaði né upplýsingar um bankainnstæður einstakra viðskiptamanna bankanna. Þrátt fyrir þetta hafi ráðuneytið leitað til slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. og innt eftir því hvort unnt yrði að gefa svar við fyrirspurninni. Svar slitastjórnar var svohljóðandi:

„Landsbanka Íslands hf. er ekki fært að upplýsa hverjir voru innlánseigendur að Icesave- reikningum bankans sakir bankaleyndar. Við stofnun á Icesave-reikningi á sínum tíma, þurftu væntanlegir innstæðueigendur að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi búsetu, persónuskilríki, lánshæfi og aðra þætti til að koma í veg fyrir svik og peningaþvætti. Þessum upplýsingum var safnað saman á þeirri forsendu að gætt yrði að réttarvernd einstaklinga á grunni persónuverndarlaga. Aðeins er hægt að birta þær vegna lagalegra ástæðna, þ.m.t. ef þar til bær stjórnvöld, s.s. vegna rannsóknar sakamála eða þ.u.l., hafa farið fram á það eða þá á grundvelli skriflegs samþykkis innstæðueigenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert