Gamlir farsímar fyrir Hjálparstarf kirkjunnar

Margir eiga gamla síma sem engum nýtast og safna ryki, …
Margir eiga gamla síma sem engum nýtast og safna ryki, en með endurvinnslu þeirra safnast fé til Hjálparstarfs kirkjunnar.

Það eru margar leiðir til að styðja hjálparstarf fyrir jólin og ein þeirra er að skila inn gömlum og notuðum farsímum. Græn framtíð og Síminn hvetja nú fólk til að koma með gamla GSM síma í verslanir símans, en þeir verða svo sendir í endurnýtingu og mun andvirði þeirra renna til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar.

Þeir sem eiga ónotaða síma inni í geymslu geta þannig stutt gott málefni og um leið lagt sitt á vogarskálarnar í umhverfisvitund. Afrakstur söfnunarinnar verður afhentur Hjálparstarfi kirkjunnar í byrjun janúar.

Fram kemur í fréttatilkynningu að Síminn er fyrsta fjarskiptafélagið á Íslandi sem endurnýti GSM síma viðskiptavina sinna með markvissum hætti, en félagið hóf endurnýtingu á þeim í haust. Markmið Símans með söfnun á gömlum farsímum er að efla umhverfisvitund meðal notenda og stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu á raftækjum hér á landi. Græn framtíð annast flutning á farsímunum til vottaðra endurnýtingafyrirtækja í Evrópu.

Að sögn Bjarna Gíslasonar, fræðslu- og upplýsingafulltrúa Hjálparstarfs kirkjunnar, hefur þörfin fyrir aðstoð vaxið gríðarlega á þessu ári. „Rúmlega helmingi fleiri leituðu til Hjálparstarfs kirkjunnar  í október 2009 miðað við sama mánuð í fyrra, eða 319 í október í fyrra en 886 í sama mánuði í ár.  Að baki hverjum umsækjanda voru 2,7 einstaklingar að meðaltali  sem þýðir að 2.300 einstaklingar nutu aðstoðar í októbermánuði í ár," segir Bjarni.

Hann segir að orsakir þess að fólk leiti til Hjálparstarfs kirkjunnar séu marþættar. „Þær eru í flestum tilvikum samspil nokkurra þátta, svo sem vegna lágra launa eða bóta, hárrar húsaleigu eða veikinda og atvinnuleysis. Búast má við erfiðum vetri og áframhaldandi fjölgun umsókna og mun Hjálparstarf kirkjunnar nota afrakstur söfnunarinnar til að mæta aukinni þörf á næsta ári."

Tekið er á móti notuðum farsímum í öllum verslunum Símans; í Smáralind, Kringlunni, Ármúla og á Akureyri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert