Ráðgjafafyrirtækið Capacent Glacier fékk greiddar 3,6 milljónir króna frá fjármálaráðuneytinu fyrir mat á ríkisábyrgð í tengslum við Icesave-skuldbindingarnar. Helga Áss Grétarssyni voru greiddar 976 þúsund kr. fyrir aðstoð við gerð Icesave-frumvarpsins sem er í meðförum Alþingis um þessar mundir og Eiríkur Tómasson lagaprófessor og Benedikt Bogason fengu 272 þúsund kr. og 360 þúsund kr. fyrir lögfræðiþjónustu vegna Icesave.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokks, um sérverkefni fyrir ráðuneyti frá 1. febrúar 2009.
Fjármálaráðuneytið bar mestan kostnað á tímabilinu eða tæpar fjörtíu milljónir króna. Þar af fékk Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, tæpar tíu milljónir kr. greiddar fyrir ráðgjöf vegna bankamála, svo sem uppgjör milli gömlu og nýju bankanna. Þá fékk Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar um Norðurlandalán, átta milljónir kr. fyrir ráðgjöf um gjaldeyrislán frá öðrum ríkjum.
Ýmsar forvitnilegar upphæðir má finna í yfirlitinu. Þannig fékk Mannvit hf. 6,4 milljónir kr. greiddar fyrir ráðgjafaþjónustu vegna hagkvæmniathugana á byggingu metanólverksmiðju og expectus 5,6 milljónir kr. fyrir verkefnastjórn sóknaráætlunar ríkisstjórnar.
Umhverfisráðuneytið greiddi svo 250 þúsund kr. til Alta fyrir hugarflugsfund í ráðuneytinu og Parx ehf. fékk 244 þúsund krónur fyrir samskonar fund í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.
Fyrirspurn Birkis og svar forsætisráðherra