Friðjóns Þórðarsonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra, var minnst á Alþingi í dag en hann lést í gær á Landakotsspítala, 86 ára að aldri.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði m.a. í minningarorðum, að Friðjón hafi átt traustu fylgi að fagna á þingmannsferli sínum.
„Hann var fylginn sér, en jafnan prúður í málafylgjunni. Er hann hvarf af þingi átti hann nokkur góð starfsár í Búðardal og hélt ótrauður áfram að efla hag sýslunga sinna og Vestlendinga allra og dró hvergi af sér þótt aldurinn færðist yfir hann. Á því sviði skilaði hann miklu verki. Síðustu viðfangsefni hans voru safn um Leif Eiríksson og um Sturlu sagnritara Þórðarson."