Gagnrýna hægagang

Gagnrýnt var á þingfundi á Alþingi í morgun hversu hægt gengur að greiða úr skuldavanda einstaklinga hjá bönkunum. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, vakti máls á því að svo virtist sem aðgerðirnar í þágu heimila væru ekki að skila þeim árangri sem til stóð.

Unnur Brá sagði að ekki væri nóg að gert og minnti hún á að um 1.000 eignir biðu nauðungarsölu.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir Samfylkingunni sagðist telja ólíklegt að lögin sem auðvelda eiga fólki að fara í frjálsa skuldaaðlögun utan dómstóla dygðu ekki, „en svo virðist sem ekki sé verið að fylgja eftir þeim römmum sem þar voru settir,“ sagði hún.

 Fram kom að félags- og tryggingamálaráðherra er um þessar mundir að óska eftir tilnefningum í starfshóp, sem á að fylgja því eftir að markmiðum laganna verði náð. Starfshópurinn þarf að mati Sigríðar Ingibjargar að fara í saumana á því hvaða hindranir eru í vegi þess að bankarnir taki á málum fólks. ,,Það liggur beint við að það þarf að byrja á því að lengja í frestun nauðungarsölu,“ sagði hún.

Tók hún undir með Unni Brá um að mjög mikilvægt væri að starfshópurinn verði skipaður sem fyrst. „Fyrsta verkefni þessa hóps er að  mínu mati að kalla til sín bankana, fá ítarlegar upplýsingar um hvernig þeir hafa verið að beita úrræðum laganna, hvort það séu einhverjar hindranir á að þeir geti beitt þeim og spyrja þá mjög ítarlegra spurninga um hvernig þeir eru að meðhöndla skuldamál heimilanna,“ sagði hún. Augljóst væri að eitthvað hindraði bankana í að vinna jafn hratt og örugglega og til stóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert