„Það eru ákveðin vonbrigði að það hefur gengið hægar að hagræða á [Landspítalanum] en reiknað var með,“ sagði Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, á Alþingi í dag. Ásbjörn Óttarsson Sjálfstæðisflokki spurði hann hvernig taka ætti á vanda spítalans við 3. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga.
Ásbjörn benti á að uppsafnaður halli Landspítalans á þessu ári væri 2,8 milljarðar og gerð væri hagræðingarkrafa á spítalann á næsta ári upp á 3,2 milljarða. Landspítalinn þyrfti því að fara í aðhaldsaðgerðir á næsta ári til að ná fram 6 milljarða kr. sparnaði. Því væri ósvarað hvernig menn ætluðu að taka á þessum halla sjúkrahússins þar sem ekki væri um það fjallað í fjáraukalagafrumvarpinu.
Guðbjartur benti á að unnið væri að aðhaldsaðgerðum á spítalanum, sem hefði verið sett að ná markmiðum um aðhald og sparnað. Tekið verði á uppsöfnuðum halla Landspítalans á lokafjárlögum þegar í ljós kemur hvernig rekstri spítalans verður komið í það horf sem fjárheimidlir veita spítalanum. Þess vegna sé ekki sérstaklega tekið á vanda hans í fjáraukalögum ársins 2009. Fjalla þurfi um þetta mál sérstaklega við gerð lokaafjárlaga. Fara þurfi vel yfir reksturinn og sú vinna standi yfir.