Ríkiskaup bjóða matsölu til starfsmanna Landspítala – háskólasjúkrahúss út að nýju einhvern næstu daga. Fyrra útboð var fellt úr gildi og tekið undir kröfur um að Ríkiskaup væru skaðabótaskyld gagnvart lægstbjóðanda.
Landspítali rekur átta mötuneyti fyrir starfsfólk sitt. Ákveðið var að bjóða matsöluna út til að spara og var starfsfólkinu sagt upp störfum miðað við áramót þegar verktaki átti að taka við rekstrinum.
Boðnar voru út 600 þúsund máltíðir á ári, í þrjú ár. Inni í því eru heitar máltíðir sem niðurgreiddar eru af Landspítalanum en einnig samlokur, jógúrt og fleiri vörur sem seldar eru í matsölum. Fimm buðu. Sláturfélag Suðurlands (SS) var með lægsta tilboð í niðurgreiddan mat, G. Eiríksson með það næst lægsta og Sælkeraveislan með þriðja lægsta tilboð. Munar tugum milljóna á tilboðunum.
SS kærði niðurstöðuna til kærunefndar útboðsmála. Nefndin stöðvaði samninga um matarsöluna og hefur nú ógilt útboðið.
Niðurstaða kærunefndarinnar byggist meðal annars á því að hluti forsendna í útboðinu hafi ekki verið nógu skýr til að bjóðendur gætu áttað sig á því hvernig kaupandi hygðist meta tilboð þeirra. Þær byðu upp á nánast ótakmarkað mat. Það sé brot á lögum um útboð. Einnig kemur fram í úrskurðinum það álit að vegna þess hversu ungt fyrirtæki Sælkeraveislan er gæti það ekki fullnægt skilyrðum útboðsins.