Á Alþingi í gær var Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra m.a. spurð hvort hún hygðist láta rannsaka svokallaðar „bullundirskriftir“ á undirskriftalista gegn Icesave-frumvarpinu og hvort uppruni þeirra væri í ríkum mæli m.a. úr tölvukerfi Ríkisútvarpsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá RÚV.
„Í dag kallar svo leiðarahöfundur Morgunblaðsins eftir tafarlausri „...opinberri lögreglurannsókn...“ á málinu.
Af þessu tilefni spurði Ríkisútvarpið skipuleggjendur undirskriftasöfnunarinnar hversu margar „bullundirskriftir“ hefðu komið frá IP-tölum RÚV og svarið var „þrjár eða fjórar“.
Í ljósi þessara upplýsinga sér RÚV ekki tilefni til frekari aðgerða í málinu.," að því er segir í tilkynningu frá RÚV.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í gær að mikilvægt væri að rannsaka hvort aðilar innan stjórnarráðsins væru að reyna að kasta rýrð á undirskriftasöfnun gegn Icesave-frumvarpinu.
Fram hefur komið hjá talsmönnum InDefence, að nokkuð hafi borið á bullundirskriftum og þegar raktar hafi verið IP-tölur þeirra tölva, þaðan sem þessar undirskriftir koma, komi oft upp lén stjórnarráðsins, Hagstofunnar og Ríkisútvarpsins, að því er fram kom í Morgunblaðinu í dag.
Þorgerður Katrín spurði Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, hvort hún muni beita sér fyrir því að þetta verði rannsakað. Katrín sagði, að það væri ekki nýtt að fólk nýtti sér undirskriftasafnanir á netinu til einhverskonar gamansemi. Það drægi hins vegar úr trúverðugleika þeirra, sem stæðu fyrir undirskriftasöfnuninni og væri ekki til að ýta undir framgang lýðræðisins.
Katrín sagði, að fólk hefði ákveðið leyfi til að birta skoðanir sínar óháð sínum vinnuveitanda. Þess vegna hafi margir vinnustaðir þá starfsreglu, að fólk nýti sín einkanetföng til að skiptast á skoðunum en ekki netföng vinnustaðarins. Hins vegar sé það væntanlega svo, að IP-tala vinnustaðarins birtist ef þetta er gert í vinnutíma.
Ráðherra sagði mikilvægt að ræða þessi mál innanhúss hjá RÚV og einnig væri mikilvægt að fjalla um þau innan stjórnarráðsins. Þorgerður Katrín sagði, að málið væri alvarlegt og það ríkti tortryggni í garð stjórnarráðsins því þar væru greinilega menn, hugsanlega spunameistarar Samfylkingarinnar, að reyna að skipta sér af undirskriftasöfnuninni. „Það dugar ekki fyrir mig að heyra að það eigi að rabba um þessi mál yfir tebolla.“
Yfir 34 þúsund undirskriftir
Yfir 34 þúsund manns hafa skrifað undir lista á vef InDefence þar sem skorað er á forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar og málið borið undir þjóðaratkvæði.