Fréttaskýring: Selfyssingar ekki lengur í alfaraleið?

Tvöfaldaður Suðurlandsvegur við Selfoss
Tvöfaldaður Suðurlandsvegur við Selfoss mbl.is

Vegagerðin hefur sent frummatsskýrslu um tvöföldun Suðurlandsvegar frá Hveragerði og austur fyrir Selfoss til athugunar hjá Skipulagsstofnun. Tvær veglínur eru enn til skoðunar framhjá Selfossi, auk nýrra brúa.

Með þessari framkvæmd, sem enn er óvissa um hvenær eða hvort verður ráðist í á næstu misserum, er ætlun Vegagerðarinnar að auka umferðaröryggi og afkastagetu Suðurlandsvegar frá Hveragerði og austur fyrir Selfoss. Alls er um nærri 14 kílómetra kafla að ræða, einn fjölfarnasta þjóðveg landsins þar sem fara hátt í 7.500 bílar um á sólarhring að jafnaði.

Þjóðvegurinn verður færður norður fyrir Selfoss, ný brú byggð yfir Ölfusá, akstursstefnur aðskildar og akreinum fjölgað. Í frummatsskýrslu er fjallað um tvær akstursleiðir í hvora átt, svokallaðan 2+2 veg, hliðarvegi, mislæg gatnamót á fjórum stöðum, tvær leiðir yfir Ölfusá og tvær brúargerðir á hvorum stað.

Veglína 1 er inni á aðalskipulagi Árborgar og á að liggja yfir miðja Efri-Laugardælaeyju í Ölfusá með tveimur brúm og koma að landi Laugardæla austan árinnar, þar sem nú er rekinn Golfklúbbur Selfoss.

Vegagerðin leggur til veglínu 2, þ.e. að sveigja veginn upp með ánni og þvera hana með einni brú neðan Grímskletts og yfir á austurbakkann við Ferjuhól, hið gamla ferjustæði Laugardælaferju. Sú veglína myndi kljúfa útivistarsvæðið við Hellisskóg, sem og golfvöllinn og fyrirhugaða íbúabyggð Flóahrepps við Svarfhól austan Ölfusár.

Kostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 11,4 milljarðar króna, miðað við 2+2 veg alla leið og fjögurra akreina Ölfusárbrú, en með áfangaskiptu verki telur Vegagerðin kostnaðinn vera 9,2 milljarða króna. Með því að fara veglínu 2, með einni brú, er kostnaðurinn 400-700 milljónum kr. lægri, allt eftir því hvaða brúargerð verður fyrir valinu; bogabrú eða svonefnd stagbrú.

Vegagerðin telur framkvæmdina hafa jákvæð áhrif á samfélagið, umferðaröryggi verði betra og samgöngur greiðari um Suðurlandsveg. Óveruleg áhrif eru sögð verða á jarðmyndanir, svæði á náttúruminjaskrá, vatnafar og vatnalíf. Neikvæð áhrif eru helst á gróður og ásýnd og þá með báðum veglínum. Meiri áhrif verða þó af veglínu 2 á fornleifar og útivistarsvæði í Hellisskógi.

Drög að tillögu um matsáætlun voru kynnt í upphafi ársins og að fengnum nokkrum athugasemdum féllst Skipulagsstofnun á matsáætlunina í mars sl. Að sögn Árna Bragasonar hjá verkfræðistofunni Eflu, sem annaðist gerð frummatsskýrslunnar, er helsta breytingin frá tillögudrögum sú að ekki er lengur gert ráð fyrir svonefndum 2+1 vegi þar sem hann þótti ekki hagkvæmur.

Gamla brúarstæðið frá 1891

Skiptar skoðanir eru um það meðal Selfyssinga að færa þjóðleiðina út fyrir bæinn. Hætt er við að straumur ferðamanna minnki eitthvað en á móti flyst úr bænum umferð vöruflutningabíla og annarra þungaflutninga, sem hefur verið að aukast á seinni árum. Sömuleiðis heyrist gagnrýni í garð Vegagerðarinnar fyrir að leggja til aðra veglínu en þá sem hefur verið inni á skipulagi viðkomandi sveitarfélaga, þ.e. Árborgar og Flóahrepps.

mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert