Spáir hvítum jólum fyrir norðan

Hvítum jólum er spáð á Norðurlandi. Það á hins vegar …
Hvítum jólum er spáð á Norðurlandi. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvort íbúar höfuðborgarsvæðisins muni fá jólasnjó. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur spáir hvítum jólum um landið norðan- og austanvert, en óvíst sé með það hvernig veðrið muni leika landsmenn á Suður- og Suðvesturlandi yfir hátíðirnar. Einar segir í samtali við mbl.is að það muni snjóa allt frá norðanverðum Vestfjörðum að Austfjörðum.

„Norðlendingar munu sjá einhvern snjó til jóla og það eru allar líkur á því að hann muni halda,“ segir Einar.

Hann bendir á að undanfarna daga hafi verið hlýtt á landinu og það sé vegna mikils háþrýstisvæðis sem hafi verið í grennd við Ísland, sem sé hlýtt að uppruna. Það muni hins vegar víkja smám saman næstu daga og berast til vesturs að Grænlandi. 

„Þá berst til okkar kalt og tiltölulega þurrt loft úr norðri. Það erum við að sjá í lok vikunnar, föstudag, laugardag og sunnudag. Það kólnar nokkuð ákveðið og herðir frostið á landinu, og þá með éljum um norðan- og norðaustanvert landið. En það helst alveg þurrt sunnantil,“ segir Einar.

Hann segir að það séu líkur á því að lægð berist frá norðurheimskautssvæðinu til suðurs, skammt fyrir austan land. „Sem gæti jafnvel aukið á snjókomuna austantil, um eða upp úr helginni, og viðheldur hér norðanáttinni hjá okkur fram yfir helgi.“

Á sama tíma sé milt og rakt loft, sem komi stundum til Íslands með rigningu, langt suður í hafi. „Lægðagangurinn með rakanum er að berast inn yfir Spán, Portúgal og Miðjarðarhaf. Þannig að loft úr þeirri átt á ekki greiða leið til okkar. Mjög ólíklega erum við að horfa upp á einhvern blota, eða þíðviðri fram til jóla.“ 

Yfirgnæfandi líkur séu því á því að snjórinn sem muni koma með éljaganginum fyrir norðan næstu daga muni halda. Jafnvel geti snjóað enn meira í áframhaldandi éljagangi.

Upplýsingar varðandi jólaveðrið um landið sunnan- og suðvestanvert eru ekki eins áreiðanlegar að sögn Einars. Spár bendi þó til þess að litlar lægðir eða lægðadrög geti myndast yfir hlýjum sjó og þær borist inn til landsins. „Þá snjóar með þessu. Ef af þessu verður þá erum við að tala um að þetta gerist um 22. eða 23. desember, í aðdraganda jólanna,“ segir Einar en tekur fram að ómögulegt sé að segja til um þetta fyrr en nær dregur.

Veðurvefur Einars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert