Fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár voru samþykkt á Alþingi í kvöld með 29 atkvæðum en 20 sátu hjá. Samkvæmt fjáraukalögum verður 158 milljarða króna halli á rekstri ríkissjóðs og sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að það væri vel sloppið miðað við allt það sem á hefði gengið.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá við afgreiðslu frumvarpsins. Kristján Þór Júlíusson, talsmaður sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd, sagði að forsendur fjáraukalaganna hefðu ekki verið skýrðar nægilega og Höskuldur Þórhallsson, talsmaður Framsóknarflokks í fjárlaganefnd, sagði að enn ríkti óvissa um tekjuhlið frumvarpsins.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að þegar fjárlögum hefði verið lokað í desember hafi verið gert ráð fyrir 153 milljarða halla. Eins og horfum stóðu síðsumar stefndi yfir 180 milljarða króna halla þrátt fyrir aukna tekjuöflun og sparnað um mitt árið.
Síðan hefði orðið sú ánægjulega þróun, að hallinn stefni nú í að verða 158 milljarðar króna, vegna þess að vaxtakostnaður ríkissjóðs væri minni en í stefndi og atvinnuleysi sömuleiðis auk þess sem tekjustofnar ríkissjóðs hefðu styrkst.
„Þegar upp er staðið held ég að við getum verið sátt við þá þróun, sem breytingar haustmánaðanna birta okkur í þessu frumvarpi til fjáraukalaga og verður nálægt því marki sem menn höfðu sett sér í upphafi ársins. Má það kalla vel sloppið miðað við allt það sem á hefur gengið," sagði Steingrímur.