Pétur Blöndal Sjálfstæðisflokki og Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsókanrflokksins, gagnrýndu heiðurslaun listamanna við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið eftir 2. umræðu á Alþingi í dag. Pétur sagði að þeir sem á listanum eru hafi sýnt sig og sannað og þurfi ekki á neinum styrk að halda.
Gunnar Bragi hvatti fjárlaganefnd til að skoða hvort allir sem á listanum eru ættu þar heima. 29 listamenn eru á heiðurslaunalista Alþingis og fær hver þeirra 1,6 milljónir kr. samkvæmt ákvörðun þingsins.
„Ég tel það mjög rangt að ríkið sé að segja hverjir séu listamenn og hverjir ekki,“ sagði Pétur. „Það ætti í rauninni að standa hérna ein króna fyrir hvern og einn, heiðurslaun. það eru hins vegar mjög stórir listamenn [sem ekki eru á listanum]. Ég nefni Björk Guðmundsdóttur, sem hefur borið hróður Íslands um allan heim. Hún er ekki á þessum lista. Ég hef lagt það til áður að hún fengi eina krónu á mánuði, þannig að það verði hreinn heiður sem hún fengi þá sem listamaður,“ sagði Pétur.
Gunnar Bragi tók undir ummæli Péturs og sagðist telja listann með nöfnum heiðurslaunahafanna mjög sérkennilegan að mörgu leyti.
„Ég tel ástæðu til þess að fjárlaganefnd og Alþingi endurskoði líka um leið tilverurétt þessa lista. Ég vil í það minnsta hvetja til þess að á milli annarrar og þriðju umræðu verði vandlega skoðað hvort það sé með eðlilegum hætti að allir sem eru á þessum lista eigi að vera þar,“ sagði hann.