Bókabúð Máls og menningar hefur sent frá sér athugasemd vegna verðkönnunar ASÍ á verði bóka. Segir í athugasemdinni að á þeim tíma sem könnunin hafi verið gerð þá hafi til aðmynd hamborgarahryggur og mynddiskar fylgt með sumum bókum í verslun Máls og menningar.
„Í kjölfar frétta af verðlagskönnun ASÍ á verði bóka vill starfsfólk Bókabúðar Máls og menningar að eftirfarandi komi fram. Á þeim tíma sem könnunin fór fram voru margar þeirra bóka sem athugaðar voru á tilboði sem við köllum gjöf með gjöf.
Bækurnar eru seldar á leiðbeinandi útsöluverði en með þeim fylgir „önnur gjöf”. Aðrar gjafir sem fylgja bókum eru t.d. kíló af hamborgarahrygg frá Gallerí kjöt að verðmæti 2500 kr., DVD myndirnar Ævintýrin úr Stundinni okkar og Bóbó bangsi að verðmæti 1650 kr.
Sem dæmi um þetta er að Góði elskhuginn eftir Steinunni Sigurðardóttir kostaði 5690 kr. eins og kemur fram í könnuninni en með henni fylgdi kíló af hamborgarahrygg. Ekki var tekið tillit til þessa í verðsamaburði.
Könnunin gefur því ekki rétta mynd af verðlagi í versluninni okkar heldur þvert á móti. Við vitum að verðlag í Bókabúð Máls og menningar er síst hærra en í öðrum bókaverslunum auk þess sem við leggjum okkur fram við hafa mjög mikið úrval og veita viðskiptavinum okkar fyrsta flokks þjónustu," að því er segir í athugasemd Máls og menningar.