Enska lögfræðistofan Mishcon de Reya skilar í dag fjárlaganefnd Alþingis álitsgerð um tiltekin atriði samninganna við Breta og Hollendinga um Icesave. Leitað var til lögfræðistofunnar fyrr í þessum mánuði. ,,Þeir brugðust vel við og tóku þetta verkefni,“ segir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar.
Einnig rennur í dag út frestur þriggja fastanefnda þingsins til að skila niðurstöðum um afmörkuð úrlausnarefni sem þeim voru fengin til meðferðar. Gert er ráð fyrir að fjárlaganefnd komi saman á morgun til að fara yfir Icesave-frumvarpið og hefja umfjöllun um þau 16 atriði sem stjórnarandstaðan kynnti í yfirlýsingu 4. desember og samkomulag náðist um að kanna sérstaklega.
Guðbjartur segir ekki liggja fyrir hve langan tíma taki fjárlaganefnd að fara yfir þessi atriði og afgreiða málið. Engu sé þá hægt að svara um hvort fundað verði á milli jóla og nýárs eða hvorum megin við jólin málið verði tekið til afgreiðslu. Fjármálaráðherra hefur sagt að stefnt sé að því að ljúka umræðunni fyrir jól en engar dagsetningar hafi þó verið settar niður.