Tveir pólskir ríkisborgarar hafa í Héraðsdómi Reykjaness verið dæmdir í 2½ árs fangelsi hvor fyrir að reyna að smygla tæpum 6 þúsund töflum af fíkniefnum til landsins.
Fíkniefnin, blanda af metamfetamíni og phencyclidinklóríði, fundust í farangri mannanna þegar þeir komu til landsins með flugvél í september frá Varsjá og höfðu töflurnar verið faldar í niðursuðudósum.
Annar maðurinn heitir Marcin Piotr Gosz, 22 ára og búsettur hér á landi, og hinn Apoldeusz Wincenty Wroblewski, búsettur í Póllandi.
Marcin, sem bjó hér á landi í þrjú og hálft ár þar til hann snéri aftur til Póllands á fyrri hluta þessa árs, sagðist hafa verið þvingaður til að fara til Íslands með pakka sem hann vissi ekki hvað var í. Hefðu 6-8 karlmenn, sem hann hefði séð þegar hann bjó á Íslandi en ekki þekkt, komið á heimili hans Póllandi 4. eða 5. september og sagt honum að hann ætti að fara með pakka til Íslands og að þeir myndu meiða hann og son hans ef hann yrði ekki við kröfu þeirra.
Marcin sagðist hafa farið með lest frá Gdynia til Varsjár um hádegisbil 11. september. Á lestarstöðinni í Varsjá hafi tekið á móti honum maður sem ók honum að flugstöðinni. Á bílastæði við flugstöðina hafi svo þessi maður komið dósunum fyrir í ferðatösku hans og sagt honum að tekið yrði á móti honum við komuna til Íslands.
Marcin sagðist ekki kannast við nafnið Apoldeusz Wincenty Wroblewski en sagði, þegar hann sá af honum mynd, að um væri að ræða einn þeirra manna sem hótaði sér.
Apoldeusz sagðist við yfirheyrslur hafa keypt dósirnar sem hann var með á markaði í Varsjá skömmu áður en hann lagði upp í ferðina og ekki hafa vitað betur en að einungis væri kjötmeti í þeim. Hann sagðist hafa ætlað til Íslands til að stunda vinnu. Hann sagðist ekki þekkja Marcin og ekki vita hvers vegna símanúmer hans væri í síma Marcins og símanúmer Marcins í síma hans.
Dómurinn gaf ekki mikið fyrir þessar skýringar mannanna og taldi sannað að þeir hefðu staðið saman að því að flytja fíkniefnin til landsins þótt ekki væri sannað að þeir hefðu ætlað að dreifa þeim hér á landi.