Greiðslur í fæðingarorlofi lækkaðar

Meirihluti félagsmálanefndar Alþingis er þeirrar skoðunar að frekar eigi að lækka greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði tímabundið en fresta einum mánuði af fæðingarorlofi um 3-4 ár. Leggur nefndin til að hámarksgreiðsla úr sjóðnum verði 300 þúsund krónur á mánuði. 

Í frumvarpi félagsmálaráðherra voru ákvæði um að fresta skyldi einum mánuði af fæðingarorlofi. Í greinargerð meirihluta nefndarinnar, sem lögð var fram á Alþingi í gærkvöldi, segir að margir þeirra, sem veittu umsögn um frumvarpið, hafi bent á að varast skyldi að skerða þann tíma sem börn hefðu til samvista við foreldra sína á mikilvægum tíma í mótunarskeiði þeirra og að með þessari breytingu væri réttur barna einstæðra mæðra til samvista við foreldra í ákveðnum tilfellum skertur niður í fimm mánuði.

Nefndarmeirihlutinn segist taka undir þessi sjónarmið og bendir jafnframt á að tillagan feli ekki í sér sparnað heldur frestun á útgjöldum ríkissjóðs um 3–4 ár. Ekki sé raunhæft að ætla að staða ríkissjóðs veiti svigrúm til að auka útgjöld vegna fæðingarorlofs sem óhjákvæmilega hlýst af því að frestaðir mánuðir bætast við útgjöld vegna fæðingarorlofs á árunum 2013 og 2014.

Nefndin leggur þess í stað að  hámarksgreiðsla úr sjóðnum verði lækkuð úr 350 þúsund krónum í 300.000 krónur en hlutfall af meðaltali launa og reiknaðs endurgjalds verði óbreytt, 80%, fyrir þann hluta launa sem er undir 200.000 krónum og 75% fyrir laun umfram 200.000 krónur.

„Meiri hlutinn telur óheppilegt að verið sé að skerða fæðingarorlofið í þriðja sinn á stuttu tímabili. 1. janúar 2009 lækkuðu mánaðarlegar greiðslur úr 480.000 kr. í 400.000 kr. og 1. júlí voru þær lækkaðar í 350.000 kr. Meiri hlutinn telur að lengra verði ekki gengið og ef þær breytingar sem nú eru lagðar til dugi ekki verði að hækka tryggingagjaldið eða endurskoða fæðingarorlofskerfið í heild sinni," segir í greinargerðinni.

Greinargerð meirihluta félagsmálanefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka